Harmleikur átti sér stað í Hafnarfirði í gær er átta ára drengur lét lífið eftir árekstur við steypubíl á bifreiðastæði milli Ásvallalaugar og íþróttahúss Hauka.
Drengurinn var iðkandi hjá Haukum og hefur knattspyrnufélagið sent aðstandendum drengsins samúðarkveðju.
„Sá sorglegi atburður átti sér stað í gær að 8 ára gamall drengur, iðkandi hjá Haukum í fótbolta, lét lífið í umferðarslysi hér á Ásvöllum. Við sendum fjölskyldu drengsins, innilegar samúðarkveðjur vegna þessa hörmulega slyss. Hugur okkar er hjá ykkur,“ segir í tilkynningu frá Haukum.
Starfsfólk BM Vallá er harmi slegið og hefur málið verulega reynt á starfsmenn. Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins sem á og rekur BM Vallá, sagði í samtali við DV fyrr í dag að hugur allra sé með fjölskyldu og ástvinum drengsins sem eiga nú um sárt að binda.
Lögreglan og höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka nú tildrög slyssins og boðað hefur verið til almennrar minningarathafnar á morgun klukkan 18 í Ástjarnakirkju.