Mennta- og barnamálaráðuneytið, í samstarfi við ÍSÍ, UMFÍ og Samband íslenskra sveitarfélaga, boðar til ráðstefnunnar Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi mánudaginn 20. nóvember kl. 9-16 í Gullteig á Grand Hótel Reykjavík og í streymi.
Á ráðstefnunni verða kynnt áform um eflingu afreksíþróttastarfs á Íslandi með bættri aðstöðu, stuðningi og réttindum fyrir afreksíþróttafólk.
Dagskrá hefst með ávarpi forseta Íslands, forsætisráðherra og mennta- og barnamálaráðherra. Að lokinni umfjöllun um framtíðarsýn mun þjóðþekkt afreksíþróttafólk greina frá sinni afstöðu. Fjallað verður um hvernig skapa megi umgjörð fyrir unga íþróttaiðkendur til að vaxa og dafna, jafnt í þéttbýli og dreifbýli.
Loks verður farið yfir hvernig hámarka megi árangur og m.a. horft út fyrir landsteinana í þeim tilgangi.