Kári Ársælsson fékk boð frá Val um að verða aðstoðarþjálfari Arnars Grétarssonar en afþakkaði starfið. Frá þessu sagði Kristján Óli Sigurðsson í Þungavigtinni.
Kári og Arnar þekkjast vel eftir tíma þeirra saman hjá Breiðablik þar sem Kári var fyrirliði liðsins.
Kári hefur verið í kringum starf Breiðabliks sem þjálfari síðustu ár.
Hann var fyrirliði í liði Blika þegar það varð bikarmeistari árið 2009 en Arnar var þá spilandi aðstoðarþjálfari liðsins.
Sigurður Heiðar Höskuldsson sagði starfi sínu hjá Val lausu á dögunum til að taka við sem þjálfari Þórs.
Eggert Gunnþór Jónsson hefur einnig átt í viðræðum við Val um starfið en það ætti að koma í ljós á næstu dögum hver aðstoðar Arnar.