Landhelgisgæsla Íslands greinir frá því á Facebook síðu sinni að Sigurður Þorkell Árnason, fyrrverandi skipherra hjá gæslunni sé látinn, 95 ára að aldri.
Í færslunni kemur fram að Sigurður hafi verið skipherra í öllum þorskastríðunum 1952, 1958, 1972 og 1976.
Í þorskastríðunum var fiskveiðilögsaga Íslands útfærð úr þremur mílum í, á endanum, 200 mílur. Skipherrar Landhelgisgæslunnar þurftu oft að taka á honum stóra sínum og þóttu flestir ganga vasklega fram í baráttunni við breska togara og bresk herskip. Almennt litu Íslendingar á skipherrana sem þjóðhetjur.
Færsla Landhelgisgæslunnar til minningar um Sigurð Þorkel Árnason fer hér á eftir í heild sinni:
„Sigurður Þorkell Árnason, fyrrverandi skipherra hjá Landhelgisgæslunni er látinn, 95 ára að aldri.
Sigurður lauk fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1951, farmannaprófi tveimur árum síðar frá sama skóla og skipstjóraprófi frá varðskipadeild Stýrimannaskólans árið 1955.
Sigurður var aðeins fjórtán ára þegar hann fór fyrst á sjó. Hann hóf fyrst störf á varðskipum Landhelgisgæslunnar árið 1947 og varð skipherra árið 1959.
Sigurður sigldi fyrst sem skipherra á varðskipinu Óðni en starfaði á öllum helstu varðskipum þjóðarinnar auk þess að vera á flugvélum og þyrlum Landhelgisgæslunnar. Sigurður var skipherra í öllum þorskastríðunum. Hann var síðasti skipherra Gæslunnar sem tók þátt í að verja útfærslu fiskveiðilögsögunnar, í fjórar mílur 1952, í 12 mílur 1958, í 50 mílur 1972 og í 200 mílur árið 1975.
Árið 1974 var Sigurður sæmdur ensku OBE-orðunni vegna björgunarafreks áhafnar varðskipsins Óðins sem bjargaði áhöfn enska togarans Notts County sem strandaði við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi árið 1968. Sigurður hlaut einnig orðu frá bandaríska sjóhernum, var riddari hinnar konunglegu norsku heiðursorðu og var sæmdur hinni íslensku fálkaorðu árið 1976 fyrir landhelgisstörf. Að auki hlaut hann fjölda annarra viðurkenninga á ferlinum.
Landhelgisgæsla Íslands vottar aðstandendum Sigurðar innilegar samúðarkveðjur.“