Eiginkona Tómasar Waagfjörð, en hann lést í átökum við Steinþór Einarsson, í íbúð á Ólafsfirði þann 3. október 2022, er látin. Lát hennar bar að fyrir um viku. Samkvæmt heimildarmanni DV hafði konan átt við mikla erfiðleika að stríða undanfarin ár og þeir mögnuðust við harmleikinn á Ólafsfirði.
Steinþór hefur verið ákærður fyrir manndráp en hann ber við sjálfsvörn. Báðir mennirnir voru með áverka eftir hníf en Tómas lést af áverkum sínum. Í ákæru segir að Steinþór hafi stungið Tómas tvisvar með hnífi í vinstri síðu með þeim afleiðingum að ytri mjaðmarslagæð fór í sundur og olli umfangsmiklu blóðtapi sem leiddi til dauða Tómasar.
Samkvæmt fréttum í fyrra var talið að eiginkonan styddi framburð Steinþórs um atburðarásina. Óvíst er hvaða áhrif fráfall hennar hefur á réttarhöldin, sönnunarfærslu ákæruvaldsins og málsvörn Tómasar. Ljóst er að meðal annars verður stuðst við tæknileg gögn er t.d. varða áverka á hinum látna og hinum ákærða.
Aðalmeðferð í málinu verður við Héraðsdóm Norðurlands eystra á Akureyri í byrjun desember.