Mörgum þótti umdeilt að Novak Djokovic væri valinn til að afhenda Ballon d’Or verðlaunin eftirsóttu í kvennaflokki í gær.
Tenniskappinn afhenti Aitana Bonmati, leikmanni Barcelona, verðlaunin við hátíðlega athöfn í gær. Lionel Messi hreppti þau karlamegin.
Það létu margir óánægju sína í ljós á samfélagsmiðlum og hafa erlendir miðlar vakið athygli á því.
Snýr óánægjan aðallega að því að Djokovic, sem er fremsti tenniskappi heims, hafi eitt sinn talað gegn jöfnum launum kynjanna í íþróttum.
Það var árið 2016 sem Serbinn lét hafa eftir sér að karlar ættu að fá betur borgað í íþróttaheiminum þar sem þeir laða að meiri áhuga.
Hann dró þessi ummæli sín þó til baka og árið 2019 á hann að hafa hvatt til þess að íþróttakarlar tækju á sig launalækkun til að hægt væri að borga konum það sama.
Það breytti því ekki að fjöldinn allur var reiður yfir því að Djokovic myndi afhenda verðlaunin eftirsóttu í gær.