Tveir seðlar voru með 13 rétta á Enska getraunaseðlinum síðastliðinn laugardag og voru báðir í eigu svokallaðra húskerfa sem mörg íþróttafélög hafa tekið upp á síðastliðnum árum.
Annar seðillin var í eigu húskerfis Knattspyrnufélags Fjallabyggðar og er þetta í annað sinn í vetur sem safnað er í húskerfi og tippað. Fyrra sinnið var fyrir fjórum vikum síðan og þá sló kerfið líka í 13 rétta. Verður áhugavert, í ljósi góðs árangurs, að fylgjast með hvort stjórnendur húskerfis Knattspyrnufélags Fjallabyggðar láti áfram líða 4 vikur á milli þess sem þeir tippa á Enska getraunaseðilinn.
Húskerfi Hauka var líka með 13 rétta á Enska getraunaseðlinum en Haukar hafa haldið úti öflugu getraunastarfi í mörg ár.
Sunnudagsseðillinn gaf líka vel af sér og þar voru það Vestmannaeyingar úr KFS sem fengu 13 rétta og 900 þúsund krónur í vinning. Stuðningsfólk KFS hefur verið iðið við kolann og fengið marga stóra vinninga í getraunum gegnum tíðina.