Fósturforeldri sem tók að sér fylgdarlausa drengi frá Palestínu segir það smánarblett á Íslandi að hafa ekki stutt við mannúðarvopnahlé á Gaza. Í hvert skipti sem samband næst við fjölskyldu og vini drengjanna á Gaza séu færðar andlátsfréttir af nákomnum.
„Við höfum aldrei staðið í þessum sporum áður. Að vera með fólk í kringum sig sem er að verða fyrir þessu. Þeir eiga báðir foreldra og þrjú systkini á Gaza,“ segir Hanna Símonardóttir.
Hún og maður hennar, Einar Þór Magnússon, hafa verið fósturforeldrar í tæp tuttugu ár og verið með flóttabörn áður. Í vor fengu þau beiðni um að taka að sér tvo drengi, frændur á aldrinum 12 og 14 ára í gegnum barnavernd. Þau voru með flóttabarn fyrir þannig að þau gátu aðeins tekið annan drenginn að sér en sonur þeirra Magnús Már og tengdadóttir Anna Guðrún tóku að sér hinn.
Hanna segir að stríðið, sem hófst í byrjun mánaðar og hefur farið síversnandi, hafi haft hrikaleg áhrif á drengina. Þegar netsamband næst, sem er af og til, koma ekkert nema slæmar fréttir af fjölskyldu og vinum drengjanna.
„Nánast í hvert skipti fáum við nýja andlátsfrétt. Afi, nágranni, vinur, frændsystkini,“ segir Hanna. Álagið og óvissan er gríðarleg.
Hanna segir það hafa verið risaáfall að heyra að Ísland hafi setið hjá í atkvæðagreiðslu hjá Sameinuðu þjóðunum um mannúðarvopnahlé á Gaza síðastliðinn laugardag.
„Ég hef ekki sett mig inn í hvaða símtöl áttu sér stað áður en það var ákveðið að sitja hjá. Þeir sem tóku ákvörðunina eru að gera það fyrir heila þjóð,“ segir Hanna.
Íslenska þjóðin sitji nú uppi með þennan smánarblett og erfitt sé að útskýra þetta fyrir þeim sem búa við þessi stríðsátök.
„Það er skellur fyrir þá sem búa við þessi stríðsátök að þjóð eins og Ísland styðji ekki við tillögu um vopnahlé,“ segir Hanna.
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, hefur afsakað hjásetu Íslands með því að það hafi vantað fordæmingu á Hamas samtökunum inn í ályktunina sem lá fyrir hjá Sameinuðu þjóðunum. Hanna segir þetta ekki halda vatni.
„Það kemur málinu ekki við. Það er alveg hægt að fordæma Hamas með öðrum hætti en að það þurfi að vera inni í sömu ályktun. Þetta er galin afsökun,“ segir hún.
Aðspurð um hvað hún myndi vilja að íslensk stjórnvöld gerðu segir hún myndi vilja sjá þau reyna að leiðrétta atkvæðagreiðsluna með einhverjum hætti. Það er að koma því á framfæri með skýrum hætti að þau hefðu skipt um skoðun og styðji mannúðarvopnahlé á Gaza skilyrðislaust.