Danny Drinkwater hefur formlega tilkynnt um að knattspyrnuskórnir séu komnir á hilluna. Þetta sagði hann í nýjum hlaðvarpsþætti.
Hinn 33 ára gamli Drinkwater hefur verið án félags síðan samningur hans við Chelsea rann út vorið 2022. Hann gekk í raðir félagsins frá Leicester 2017 en náði sér aldrei á strik.
Miðjumaðurinn fyrrverandi var þar áður flottur fyrir Leicester og vann Englandsmeistaratitilinn eftirminnilega með liðinu 2016.
„Mig langar að tilkynna að ég er hættur í knattspyrnu. Þetta hefur verið lengi að gerast en mig langar að tilkynna það formlega núna,“ sagði Drinkwater.
„Ég hef lifað í óvissu of lengi. Mig hefur langað að spila en ekki fengið tækifæri til að spila á því stigi sem ég vil vera á. Ég fékk nokkur tilboð úr ensku B-deildinni en það kveikti ekki í mér.“
Auk Chelsea og Leicester hefur Drinkwater leikið fyrir lið á borð við Aston Villa, Burnley og Kasimpasa í Tyrklandi, en hann kom upp í gegnum unglingastarf Manchester United á sínum tíma.