Eins og flestir vita tapaði Manchester United gegn nágrönnum sínum í Manchester City í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar í gær.
Sigurinn var þægilegur fyrir bláliða en allt hófst þetta þegar City fékk vítaspyrnu eftir um 25 mínútna leik. Rasmus Hojlund tók Rodri niður í teignum en einhverjum þótti dómurinn umdeildur. Erling Braut Haaland fór á punktinn og skoraði.
Haaland átti eftir að bæta við marki snemma í seinni hálfleik áður en Phil Foden innsiglaði 0-3 sigur.
Tap United í gær þýðir að liðið hefur tapað 34 heimaleikjum frá því goðsögnin Sir Alex Ferguson lét af störfum árið 2013.
Á sínum 26 árum hjá félaginu tapaði Ferguson einmitt 34 leikjum á Old Trafford, eitthvað sem átta eftirmönnum hans hefur nú tekist að jafna á áðeins tíu árum.
Ljóst er að staðan hjá United er alvarleg en liðið er í áttunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 15 stig eftir tíu umferðir.