fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Þær sitja skörinni neðar, ennþá!

Eyjan
Laugardaginn 28. október 2023 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigrún amma hafði þann háttinn á í Helgamagrastrætinu á meðan við afi gúffuðum í okkur hádegiskostinn, oftast þverskorna ýsu með hamsatólg og heimaræktuðum kartöflum og rófum, að draga fram neðstu skúffuna í skáparöðinni í eldhúsinu og tylla sér þar á bríkina svo lítið bæri á. Henni fannst það líklega ekki hæfa að hún, ef hana skyldi kalla, sæti til borðs með karlpeningnum á heimilinu.

En líklega var þetta vani í bland við lítillæti og hógværð.

Ugglaust hafði hún lært þennan sið heiman úr Víkursveitinni á Ströndum norður þar sem þau afi deildu búi um áraraðir. Þar voru húsmæðurnar nú ekki að trana sér fram. Og þótt eldhúsverkin væru þeirra helsta áskorun í hita og þunga dagsins, létu þær einatt lítið fyrir sér fara þegar karlarnir komu askvaðandi inn af engjunum, sársoltnir og kaldir.

Ég man að maddamma Ragnheiður, spúsa Munda afabróður, hafði sama háttinn á þegar litla eldhúskytran í gula bárujárnshúsinu fyrir norðan læk á Melum var við það að fyllast af matlystugum hreystimennum. Þá var amma dáin út af elli kerlingu, eins og gengur, en ég kominn í sveit með afa í ystu byggðunum á aftanverðum Vestfjörðum, þar sem ekið er norður fyrir hníf og gaffal – og vegurinn endar.

Frú Ragnheiður dró líka neðstu skúffuna út á sínum kokkhússbletti á meðan karskur mannskapurinn tók til matar síns, en þá lét hún sig síga niður fyrir augnhæð allra þeirra matvinnunga sem við borðið sátu.

En svona var þetta.

Og svona er þetta enn, alltént hvað kjörin, sæmd og framferði varðar.

„Og launaójafnréttið er eiginlega ennþá réttlætt með því að konur hafi hvorki tíma né getu til að takast á við fullan vinnudag.“

Það mun líða meira en hálf öld frá kvennafrídeginum sögulega haustið 1975 þar til konur sjá til lands í lífskjörum á við eyjarskeggjana sem þar eru fyrir. Og launaójafnréttið er eiginlega ennþá réttlætt með því að konur hafi hvorki tíma né getu til að takast á við fullan vinnudag. Því hvað verði um börnin, heimilið og þrifin?

Við erum ekki komin lengra. Kannski þó upp í næstefstu skúffuna í eldhússkápunum, en alls ekki upp á sama borð og karlarnir. Þess verður að bíða lengra fram eftir öldinni.

Sjálfur er ég ekki einasta alinn upp við þetta misrétti – og fundið það á skinni formæðra minna, heldur hef ég líka fylgst með því í atvinnulífi eiginkonu minnar. Ósjálfráða launaviðtalið hefur alltaf verið henni í óhag frá því hún byrjaði úti á vinnumarkaði og allt fram undir fjórðung nýrrar aldar.

Og af því að við höfum eignast jafn margar stelpur og stráka, þrennt af hvorri sort, veit ég sem er að enn mun halla á stelpurnar mínar á næstu árum, strákunum mínum í vil.

Eftir allan þennan langa, langa tíma, munu þær enn þá sitja skörinni neðar. Og segja dætrum sínum og sonum sömu gömlu söguna, sömu gömlu tugguna, sem enn þá stendur í okkur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim