Talsverð reiði hefur brotist út á samfélagsmiðlum vegna þeirrar ákvörðunar Íslands að sitja hjá í atkvæðagreiðslu varðandi ályktun um vopnahlé á Gaza í neyðarumræðu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í gær.
Ályktunin var lögð fram af Jórdaníu, fyrir hönd ríkja Arabahópsins svokallaða, en ástæða þess að Ísland studdi ekki ályktunina, samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu, var sú að ekki var tekið til grimmdarverka Hamas, sem hófu átökin, né var með beinum hætti brugðist við gíslatöku Hamas en 200 manns eru þar í haldi, þar af 30 börn. Breytingartillaga Kanada við ályktunina, þar sem tekið var á þessum atriðum, náði ekki fram að ganga en fyrir liggur að þá hefði Ísland samþykkt ályktunina.
Af þessum sökum ákvað Ísland að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni ásamt 44 öðrum ríkjum en 120 ríki samþykktu ályktunina og 14 voru á móti henni.
Ljóst er að margir hafi litla samúð með þessari stjórnsýslu og sérstaklega í ljósi þess að í nótt voru umfangsmestu árásir Ísraela á Gaza-ströndina frá upphafi átakanna. Ekki liggja fyrir tölur um mannfall en ljóst er að það er umtalsvert.
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, var einn þeirra sem tjáði sig um málið á samfélagsmiðlum og hann er hneykslaður á afstöðuleysi Íslands.
Rifjaði Kristinn svo upp í annarri færslu grein Katrínar Jakobsdóttur í DV frá árinu 2014 en þar velti hún upp þeirri hugmynd hvort rétt væri að slíta stjórnmálastarfi við Ísrael vegna grimmdarverka þeirra gegn Palestínumönnum.
„Þegar börn eru stráfelld getur alþjóðasamfélagið ekki setið hjá,“ skrifaði Katrín árið 2014 en bendir Kristinn á að þá hafi um 550 palestínsk börn verið felld. Nú sé staðan sú að minnsta kosti 3.000 palestínsk börn eru fallin og þá hafi ríkisstjórn Katrínar ákveðið að sitja hjá.
Pálmi er á því að Ísland hafi samþykkt þjóðarmorð með því að sitja hjá. „Ekki í mínu nafni, heybrækur,“ skrifaði tónlistarmaðurinn í færslu sem deilt hefur verið víða.