Talsvert gekk á hjá lögreglu frá klukkan 18 í gærkvöldi og til tíu í morgun. Alls voru sjö einstaklingar vistaðir í fangaklefa yfir nóttina og þá voru átta stöðvaðir í akstri grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Einn aðili var handtekinn í hverfi 109 eftir að höfð voru afskipti af honum vegna ölvunar við bifreiðina hjá sér. Kom þá í ljós að hann var með haglabyssu í aftursætinu sem var ótryggð , einnig var annað skotvopn í bifreiðinni ásamt nokkur magni skotfæra. Var sá vistaður í fangageymslu vegna málsins.
Þá var tilkynnt um hópslagsmál við skemmtistað í Grafarvogi og var dyravörður með einn í föstum tökum þegar lögreglu bar að. Sá reyndist vera vopnaður hníf. Einum var ekið á slysadeild til skoðunar.
Einn aðili var handtekinn í miðbænum vegna kynferðislegs áreitis. Hann er sagður hafa verið víðáttuölvaður í dagbók lögreglunnar og gat hann hvorki gefið upp nafn né aðrar persónuupplýsingar. Var hann vistaður í fangageymslu vegna málsins.
Tilkynnt var um eld í bifreið á Barónstíg en tvær bifreiðar eyðilögðust í eldsvoðanum og sú þriðja skemmdist töluvert. Ekki er vitað um eldsupptök en málið er í rannsókn.
Þá var einn aðili handtekinn í miðbænum eftir að hafa átt í útistöðum við lögreglumann og sparkað í lögreglubifreið svo tjón hlaust af. Reyndist hinn handtekna vera með fíkniefni á sér.