Andre Onana, markvörður Manchester United, hefur tjáð sig eftir að liðsfélagi hans Alejandro Garnacho var sakaður um kynþáttaníð í hans garð.
Um var að ræða færslu sem Garnacho birti eftir leikinn gegn FC Kaupmannahöfn í Meistaradeildinni. United vann leikinn 1-0 á dramatískan hátt þar sem Onana varði víti FCK í uppbótartíma og tryggði sigurinn.
Eftir leik birti Garnacho mynd af sér, Onana og liðsfélögum fagna sigrinum en lét hann tvö górillu-tákn fylgja. Hann eyddi færslunni en netverjar voru ekki lengi að taka skjáskot og deila út um allt.
Í enskum miðlum er fjallað um að enska knattspyrnusambandið gæti túlkað færsluna sem kynþáttaníð og Garnacho yrði þá refsað. Samandið veit af málinu.
Onana vill ekki sjá Garnacho vera refsað.
„Fólk getur ekki valið yfir hverju ég móðgast. Ég veit nákvæmlega hvað Garnacho var að meina: Orka og kraftur. Þetta mál á ekki að fara neitt lengra,“ skrifaði hann á samfélagsmiðla.