Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar gerir stöðu kvenna innan félagsins að umræðuefni í færslu á Facebook-síðu sinni sem hún birti fyrr í dag. Staða þeirra og annarra verkakvenna sé það slæm að það sé skömm á íslensku samfélagi. Sólveig vísar í tölur sem fengnar eru úr könnun sem Varða – Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins lagði fyrir félagsfólk ASÍ og BSRB í febrúar á þessu ári:
„Um 63% Eflingarkvenna á erfitt með að ná endum saman.
Meira en helmingur Eflingarkvenna býr við þunga byrði af húsnæðiskostnaði.
Um 55% Eflingarkvenna geta ekki mætt óvæntum 80.000 kr útgjöldum.
Um 50% Eflingarkvenna býr við slæma andlega heilsu.
Eflingarkonur mælast hæstar allra í kulnunareinkennum, en ríflega 53% Eflingarkvenna sýna merki kulnunar.
Hátt í 52% aðfluttra Eflingarkvenna hafa orðið fyrir brotum á vinnumarkaði.“
Sólveig er afdráttarlaus um hvað þessar tölur leiða í ljós að hennar mati og hvað þurfi að gera til að bæta stöðu verkakvenna í Eflingu og öðrum stéttarfélögum:
„Staða verkakvenna er skömm á samfélagi okkar. Ráðast þarf samstundis í að laga kjör þeirra. Ómissandi konur eiga skilið mannsæmandi laun og líf laust við heilsuspillandi áhyggjur og álag.
Berjumst saman fyrir bættum kjörum verka og láglaunakvenna.“