Samkvæmt Neil Custis hjá The Sun er Manchester United að reyna að fá David de Gea aftur til félagsins. Hann var áður í tólf ár hjá félaginu.
Segir í frétt blaðsins sem birtist í kvöld að félagið vilji fá inn markvörð þar sem Andre Onana fer í Afríkukeppnina í janúar.
United keypti Onana frá Inter í sumar en þá var hann hættur að spila fyrir landslið Kamerún. Hann er hins vegar mættur aftur í landsliðið.
De Gea var hent út af Old Trafford í sumar af Erik ten Hag sem vildi kaupa Onana. Segir í fréttinni að félagið vilji fá hann aftur.
De Gea er án félags eftir að United lét hann fara en hann hefur mikið verið í borginni undanfarnar vikur.
Ef Kamerún gengur vel þá verður Onana í burtu í heilan mánuð og þá vill enska félagið ganga frá samningi við De Gea til skamms tíma.