Keðjan, sem rekur rúmlega 40.000 veitingastaði um allan heim, er nú orðin átakapunktur í stríði Ísraels og Hamas. Þetta hefur ekki aðeins leitt til þess að skemmdarverk séu unnin á veitingastöðum keðjunnar í mörgum löndum því sífellt fleiri sniðganga hana nú í Miðausturlöndum.
Þetta hófst þegar leyfishafi McDonald´s í Ísrael tilkynnti að hann myndi gefa ísraelskum hermönnum, lögreglumönnum og almennum borgurum mörg þúsund máltíðir daglega í kjölfar árásar Hamas á Ísrael þann 7. október.
Nokkrum dögum síðar skýrði leyfishafinn frá því á Instagram að tugir þúsunda máltíða hefðu verið gefnar um allt land frá árás Hamas. Með fylgdu myndir af bílum fullum af máltíðum frá McDonald´s og hermenn og starfsfólk sjúkrahúsa sem tók við þeim. Einnig var tekið fram að áfram yrði haldið að gefa mörg þúsund máltíðir á dag til hersins. Fimm veitingastaðir McDonald´s í Ísrael þjónusta einungis hermenn og aðra sem vinna að öryggismálum og fá þeir ókeypis mat þar.
En þessi samstaða ísraelska leyfishafans með ísraelska hernum hefur vakið mikla reiði í Arabaheiminum. Ráðist hefur verið á fjölda veitingastaða keðjunnar á svæðinu og margir sniðganga þá.
Leyfishafar McDonald´s í Katar, Kúveit, Óman, Tyrklandi, Bahrain, Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum, Sádí-Arabíu, Egyptalandi, Líbanon og Jórdanínu hafa heitið því að gefa rúmlega 3 milljónir dollara til mannúðarmála á Gaza að sögn Al Jazeera.
En þessi fjárframlög hafa ekki stöðvað hvatningar til fólks um að sniðganga McDonald´s í Arabaheiminum.
En svo vikið sé aftur að kenningu Friedman um að tvö ríki, þar sem eru McDonald´s veitingastaðir, hafi aldrei lent í stríði gegn hvort öðru þá er hún fallin um sjálfa sig því McDonald´s var til staðar í Rússlandi og Úkraínu þegar Rússar réðust inn í Úkraínu.
McDonald´s er þó ekki með veitingastaði á Gaza eða Vesturbakkanum en hins vegar er keðjan með veitingastaði í Líbanon en Ísraelsmönnum hefur einnig lent saman við liðsmenn Hezbolla sem halda til þar í landi.