Björgunsveitir aðstoðuðu í gærkvöldi hóp fólks sem hafði gengið á Ingólfsfjall, milli Hveragerðis og Selfoss, og villst. Niðamyrkur var komið og treysti fólkið sér ekki til að halda áfram. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu.
Björgunarsveitir úr Hveragerði og Grímsnesi fóru fólkinu til aðstoðar á sexhjólum og bíl. Björgunarfólk kom að fólkinu norðarlega á fjallinu, flutti það á hjólum til móts við heitan björgunarsveitarbíl, sem svo flutti það áfram niður af fjalli. Þar tók lögreglan við fólkinu og kom því áfram á sinn áfangastað.
Á sama tíma var björgunarsveit á Blönduósi boðuð út vegna húsbíls sem fór út af veginum á Vatnsskarði milli Blönduóss og Varmahlíðar. Bíllinn rann af veginum og út í krapaelg þar sem hann sat fastur, sem og fólkið sem í honum var.
Björgunarfólk keyrði bíl björgunarsveitarinnar að húsbílnum þar sem hann var fastur, og aðstoðaði fólkið úr honum og yfir í bíl björgunarfólks. Húsbílinn þurfti að skilja eftir.