Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Suðurlands þess efnis að kallaður verið til matsmaður til að meta sakhæfi manns sem tók upp hníf í verslun og ógnaði fólki.
Atvikið átti sér stað 25. maí árið 2021, innandyra í verslun. Maðurinn er sagður hafa dregið upp hníf inni í versluninni, en hann hafði hnífinn meðferðis innanklæða, og otaði hnífnum að öðrum manni og hótað að leggja til hans með hnífnum. Var þetta til þess fallið að vekja með brotaþolanum ótta um eigið líf, heilbrigði og velferð.
Í úrskurði héraðsdóms í málinu segir:
„Ákærði hefur farið þess á leit með beiðni, sem lögð var fram í málinu 19. apríl síðastliðinn, að dómkvaddur verði einn hæfur, óvilhallurog sérfróður matsmaður, sálfræðingur eða geðlæknir, til að láta í té skriflegt og rökstutt álit um hvort ákærði sé sakhæfur í skilningi 15. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og hvort ætla megi að refsing geti borið árangur, sbr. 16. gr. sömu laga. Í beiðninni kemur fram að í skýrslu sinni hjá lögreglu hafi ákærði sagst hafa verið að glíma við ýmiss andleg veikindi. Hafi hann tekið lyf við veikindum sínum en hætt inntöku þeirra skömmu áður. Þá hafi hann átt í erfiðleikum með að hemja skap sitt og tilfinningar. Er þess getið í matsbeiðni að ákærði eigi sér enga sögu um ofbeldi eða sakaferil vegna eðlislíkra brota. Sé því um að ræða eitt einangrað tilvik sem samræmist ekki fyrri hegðun eða skapgerð ákærða. Telur ákærði mikilvægt að fá endanlega skorið úr um sakhæfi sitt og hvort refsing geti borið árangur.“
Ákæruvaldið telur að ekki sé ástæða til að kanna sérstaklega sakhæfi mannsins. Engin haldbær gögn hafi verið lögð fram um veikindi hans og hvorki sé vafi um sakhæfi hans né að hann hafi ekki áttað sig á gjörðum sínum.
Þessu eru bæði héraðsómur og Landsréttur ósammála og mun því verða kallaður til matsmaður sem mun rannsaka hvort maðurinn teljist sakhæfur eða ekki.
Úrskurði Landsréttar og héraðsdóms í málinu má lesa hér.