Vilhjálmur birti á Facebook-síðu sinni í morgun samanburð á samræmdri vísitölu neysluverðs milli landa.
„Þessi vísitala er reiknuð út nákvæmlega eins í öllum löndum innan ESB og ESS. Eini munurinn á samræmdu vísitölunni og þeirri íslensku er sá að svokölluð reiknuð húsaleiga er ekki inni í þeirri samræmdu. En reiknaða húsaleigan samanstendur aðallega af hækkun á fasteignaverði og vöxtum.“
Þegar verðbólga á Ísland, Evrusvæðinu, Danmörku, Svíþjóð og Noregi, samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs frá 2014 til 2022, er skoðuð þá er verðbólga á Íslandi 2,7%, á Evrusvæðinu 2,12%, í Danmörku 1,82%, í Svíþjóð 1,80% og í Noregi 3,07%.
„Með öðrum orðum verðbólgan samkvæmt samræmdu vísitölunni er örlítið meiri en á Evrusæðinu sem og í Danmörku og Svíþjóð en hún er ögn hærri í Noregi en á Íslandi,“ segir hann og fer svo ofan í saumana á vaxtakjörunum sem eru í boði.
„Hvaða vaxtakjör standa neytendum til boða í þessum löndum að meðaltali á þessu tímabili og er hér verið að tala um fasta vexti til 30 ára í þessum löndum? Jú, mér sýnist að þeir séu á bilinu 2% til 4% á meðan íslenskum neytendum hefur staðið til boða fastir óverðtryggðir húsnæðisvextir til 5 ára sem eru að meðaltali fyrir þessi ár rúm 7%. Hugsið ykkur, íslenskum neytendum og heimilum er gert að greiða að meðaltali 162% hærri vaxtagjöld en í umræddum löndum!“
Vilhjálmur ítrekar að staðan sé svona þó verðbólga sé á svipuðum slóðum þegar tekið er tillit til samræmdrar vísitölu neysluverðs.
„Mitt mat er hvellskýrt, að komandi kjarasamningar eigi og verði að snúa að því að taka á þessari slagæðablæðingu sem fjármálakerfið er að valda íslenskum heimilum með okurvöxtum, verðtryggingu og himinháum þjónustugjöldum. Því verður verkalýðshreyfingin að gera skýlausa kröfu um kerfisbreytingar, kerfisbreytingar sem lúta að nýju húsnæðislánakerfi þar sem heimilum standi til boða vaxtakjör sem eru með sambærilegum hætti og gerist í þeim löndum sem við berum okkar saman við.“
Vilhjálmur segir að þessu til viðbótar eigi að gera þá kröfu að Landsbankinn, banki allra landsmanna, verði gerður að samfélagsbanka og arðsemiskrafa hans verði lækkuð verulega.
„Hvar eru stjórnvöld og alþingismenn? Því miður hefur það verið lenska hjá stjórnvöldum á liðnum áratugum að setja smáplástra til handa neytendum og heimilum og eru þessir smáplástrar til að verja fjármálakerfið með kjafti og klóm á kostnað neytenda, launafólks og heimila. Málið er einfalt, þú setur ekki plástur á slagæðablæðingu enda er heimilum að blæða út!“