Í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit sagði konan að maðurinn starfi sem „dísil vélvirki“ og komi oft heim útataður í eldsneyti. Hann þrífur sig þó í vinnunni en eiginkonan segist kjósa að hann fari í sturtu þegar hann kemur heim svo hann ati ekki rúmfötin þeirra út í dísilolíu, skilji eftir sig bletti og óþef í rúmfötunum.
„Eiginmaður minn og ég deilum sífellt um það að hann fer upp í rúm án þess að fara í sturtu áður. Ég hef margrætt þetta við hann og sagt honum að ég vilji ekki að hann fari upp í rúm án þess að fara í sturtu fyrst. Ástæðan er í fyrsta lagi hreinlæti og í öðru lagi að hann er dísil-vélvirki sem kemur heim þakinn dísilolíu. Hann þvær sér eins mikið og hann getur í vinnunni en þegar hann kemur heim sé ég olíuna enn á húð hans,“ skrifaði konan.
„Hann afsakar sig alltaf með að hann sé svo þreyttur og geti ekki sofnað strax eftir sturtu. Hann sofnar svo sannarlega strax eftir sturtu! Við rífumst stanslaust um þetta því ég er svo þreytt á að þvo sængurverin annan hvern dag vegna blettanna og óþefsins af þeim. Hann lætur mér líða eins og ég sé að fara fram á of mikið og að ég sé algjör belja að leyfa honum ekki að sofa nóg,“ bætti hún svo við.
Hún játaði einnig að vera „hreinlætisfrík“ og að hún fari í sturtu tvisvar á dag.