Óttar Pálsson hæstaréttarlögmaður hjá Logos gæti átt yfir höfði sér kæru vegna meintrar líkamsárásir. Þetta kemur fram í umfjöllun Mannlífs nú fyrir stundu en þar kemur fram að verslunareigandi einn í miðborginni eigi pantaðan tíma hjá lögreglu í lok mánaðar til þess að leggja kæruna fram.
Í umfjöllun Mannlífs kemur fram að Óttar hafi verið borinn þeim sökum að ráðast á verslunareigandann þann 5. október síðastliðinn. Nákvæm atburðarás liggur ekki fyrir en hermt er að fórnarlambið hafi verið með áverka eftir hina meintu árás, meðal annars brákað rifbein.
Flestir fjölmiðlar landsins hafa fjallað um málið síðustu daga án þess að persónur og leikendur hafi verið nafngreind. Morgunblaðið reið þó á vaðið um helgina og greindi frá því að Óttar stæði í hjónaskilnaði en hermt er að það tengist atburðarásinni.
Óttar er einn af eigendum Logos, sem er ein stærsta og öflugasta lögmannsstofa landsins. Upphaf málsins má rekja til náinnar vináttu hans og Áslaugar Björgvinsdóttir, meðeiganda að stofunni, en hún er eiginkona áðurnefnds verslunarmanns.
Herma heimildir DV að verslunareigandinn hafi meðal annars mætt með afrit af samskiptum milli Óttars og Áslaugar upp á skrifstofu Logos og valdið þar nokkrum usla. Það hafi meðal annars stuðlað að áðurnefndu uppgjöri í versluninni.
Starfsfólk Logos er í uppnámi vegna málsins og óvíst er hvaða áhrif þetta hefur á starfsemi stofunnar.
Verði Óttar kærður og dæmdur fyrir áðurnefnda líkamsárás þá er möguleiki að hann missi réttindi sín sem hæstaréttarlögmaður. Það myndi tíðindum sæta enda hefur Óttar verið einn þekktasti og öflugasti lögmaður landsins um árabil og þjónustað stærstu fyrirtæki landsins.