Móðir drengsins, Michelle Murrell, segir við Daily Mail Australia að sonur hennar, Blake Murrell, hafi verið slappur þegar hún sótti hann á daggæsluna í úthverfi Sydney þann 28. júlí síðastliðinn. Á þessum tíma var hann að taka tennur og taldi Michelle að slappleikinn væri vegna tanntöku og hugsanlega einhverrar pestar sem hann hafði náð sér í.
Blake var með hita og kastaði upp en eftir örfáa daga virtist hann vera að ná sér. En tíu dögum eftir að einkennin gerðu fyrst vart við sig hrakaði heilsu hans hratt og þann 7. ágúst var hann fluttur á Campbeltown-sjúkrahúsið í suðvesturhluta Sydney.
Þar kom í ljós að bólgur voru í kringum heilann og fór svo að hann var fluttur á barnaspítalann í Sydney þar sem sérfræðingar tóku á móti honum. Þar var brugðið á það ráð að svæfa Blake til að líkami hans hefði betri möguleika á að berjast gegn sýkingunni en allt kom fyrir ekki. Hann var úrskurðaður látinn þann 16. ágúst – tæpum þremur vikum eftir að einkennin komu fyrst fram.
Á vef Heilsuveru kemur fram að heilahimnubólga (e. meningitis) sé bráð eða krónísk bólga í himnum sem umlykja heila og mænu. Oftast sé það bakteríu- eða veirusýking sem veldur þessari bólgu en hún getur líka orsakast af sveppasýkingu eða sýkingu af völdum sníkjudýra.
„Fólk á öllum aldri getur fengið heilahimnubólgu þó hún sé algengari meðal barna, unglinga og ungs fólks. Heilahimnubólga af völdum bakteríusýkinga er alvarlegasta form heimahimnubólgu og er unnt að fá bólusetningu gegn nokkrum tegundum þeirra.“
Michelle segir að hún sé sjálf menntuð í hjúkrunarfræði. Heilsa hans hafi verið upp og niður fyrstu dagana og hún passað upp á að halda að honum vökva og gefið honum hitalækkandi lyf. „Svo tók ég eftir því eina nóttina að hann hélt skringilega um höfuðið og virtist mjög stífur,“ segir hún en eitt af einkennum heilahimnubólgu er einmitt stífleiki í hnakka. Það var þá sem hún fór með hann fyrst til læknis.
Læknar reyndu hvað þeir gátu að bjarga lífi Blake litla en allt kom fyrir ekki. Læknar náðu sýkingunni niður með sýklalyfjum en vegna mikillar bólgu í vefjum sem umlykja heilann höfðu miklar og varanlegar skemmdir orðið. „Þeir sögðust ekkert geta gert,“ rifjar hún upp.
Blake var brenndur og geymir fjölskyldan ösku hans í hjartalaga boxi á heimili þeirra í Sydney.
Fyrstu einkenni heilahimnubólgu geta komið snögglega fram. Þau algengustu eru:
Börn geta auk þess haft eftirfarandi einkenni:
Heilahimnubólga getur orsakast af:
Heilahimnubólga af völdum bakteríusýkingar er sjaldgæfari en um leið alvarlegri en heilahimnubólga sem orsakast af öðrum sýkingum. Mikilvægt er að leita til læknis um leið og grunur vaknar um heilahimnubólgu.
*Heimild: Heilsuvera