Sú var raunin á dögunum þegar hann hélt uppistand í TD Garden í Boston þar sem þúsundir áhorfenda voru samankomnir til að horfa á kappann.
Í umfjöllun Wall Street Journal kemur fram að Chappelle hafi ákveðið að tjá sig um stöðu mála fyrir botni Miðjarðarhafs, stríð Ísraelsmanna við Hamas-samtökin í Palestínu, og féll afstaða hans ekkert sérstaklega vel í kramið hjá hópi áhorfenda.
Chappelle hjólaði í Ísraelsmenn og sagði þá fremja „stríðsglæpi“ með því að fremja morð á saklausum borgurum. Chappelle er þó sagður hafa fordæmt innrás Hamas-samtakanna í Ísrael en gagnrýni hans beindist hins vegar fyrst og fremst að Ísrael. Gagnrýndi hann þá fyrir að skrúfa fyrir vatn inn á Gaza-svæðið og koma í veg fyrir að nauðsynlegar vörur kæmust þangað.
Í frétt Wall Street Journal kemur fram að áhorfendur hafi gert köll að Chappelle og sagt honum að þegja.
„Hluti áhorfenda fagnaði því sem hann sagði en mér var hreinlega óglatt. Ég sneri mér að konunni minni og vinum og sagði að nú væri sennilega best að fara. Það voru margir gyðingar sem yfirgáfu salinn,“ segir einn þeirra sem var á sýningunni.