Páll Breiðdal Samúelsson, fyrrverandi forstjóri Toyota hér á landi, er látinn 94 ára að aldri. Páll lést á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka aðfaranótt laugardags.
Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.
Páll fæddist á Siglufirði 10. september 1929 þar sem hann bjó fyrstu árin. Hann flutti til Reykjavíkur þar sem hann sneri sér að viðskiptum. Var hann hluthafi í Japönsku bifreiðasölunni hf. ásamt tengdaföður sínum, Boga Sigurðarsyni, og keypti hann síðar allt fyrirtækið.
Páll flutti fyrsta Toyota-bílinn til Íslands og seldi árið 1965 en fimm árum síðar, árið 1970, var P. Samúelsson ehf. stofnað en það hafði umboð fyrir Toyota á Íslandi. Páll og fjölskylda hans seldu reksturinn árið 2005.
Eftirlifandi eiginkona Páls er Elín Sigrún Jóhannesdóttir. Börnin eru Jón Sigurður, fæddur 1953, verslunarmaður; Bogi Óskar, fæddur 1962, viðskiptafræðingur, og Anna Sigurlaug, fædd 1974.