Í greiningu Deborah Haynes, ritstjóra Sky News á sviði örygis- og varnarmála, kemur fram að ástandið geti farið svo alvarlega úr böndunum að allsherjarstríð brjótist út í heimshlutanum og að það geti orðið svo svakalegt að ekki einu sinni Bandaríkin geti stöðvað það.
Hún bendir á að margir fletir séu á málinu og margt sem getur leitt til þess að allsherjarstríð brjótist út. Meðal þeirra sem geti komið við sögu séu Hezbollah í Líbanon, klerkastjórnin í Íran sem á í nánu sambandi við Vladímír Pútín og stjórn hans og fjöldi samtaka sem eru óvinir Ísraels.
Haynes bendir á að Bandaríkin átti sig á hversu alvarleg staðan sé, sérstaklega sú ógn sem stafar af Íran, og séu því að styrkja her sinn nærri Ísrael. Hafi bandarísk stjórnvöld meðal annars tilkynnt að þau ætli að senda fleiri loftvarnarkerfi til svæðisins til viðbótar þeim tveimur flugmóðurskipum sem þar eru.
Hún segir síðan að óljóst sé hvort máttur mesta hernaðarveldis heims dugi til að koma í veg fyrir að átök Hamas og Ísraels breiðist út og úr verði allsherjarstríð í Miðausturlöndum, stríð sem mun hafa áhrif á heiminn allan.
„Í raun virðist enginn hafa stjórn á hvað getur gerst næst, nú þegar Ísrael færist nær því að herða enn sókn sína gegn herskáum Palestínumönnum á Gaza. Ísraelskir leiðtogar átta sig á hættunni en segjast ekki eiga annarra kosta völ en að berjast í kjölfar árásar Hamas þann 7. október,“ segir hún síðan.