fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Morðæði fyrir botni Miðjarðarhafs

Eyjan
Sunnudaginn 22. október 2023 18:00

Hamasliði.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hinn 6. október síðastliðinn var liðin rétt hálf öld frá innrás egypskra og sýrlenskra hersveita í Ísrael. Innrásin var framin á jom kippur, helgasta degi gyðinga, sem kallaður er forsoningsdag á öðrum norrænum málum, þ.e. friðþægingardagur. Þetta er eini dagur ársins sem gyðingar um heim allan sameinast í einhvers konar helgihaldi, líka þeir sem ekki eru trúaðir. Hinir heittrúðu safnast fyrir í samkunduhúsunum og snerta hvorki mat né drykk, heldur biðjast fyrir og iðrast synda sem þeir kunna að hafa drýgt á liðnu ári.

Golda Meir, þáverandi forsætisráðherra Ísraels, segir frá því í endurminningum sínum að daginn áður, 5. október 1973, hafi hún fengið af því fregnir að fjölskyldur sovéskra ráðgjafa í Sýrlandi hefðu pakkað niður föggum sínum og væru á leið úr landi. Þetta minnti hana á aðdraganda sex daga stríðsins 1967; hvað vissi þetta fólk sem ísraelsk stjórnvöld vissu ekki? Helstu ráðgjafar hennar töldu ekki að innrás væri yfirvofandi en sjálf hafði hún hugboð um annað.

Alls létu 2500 ísraelskir hermenn lífið í stríðinu sem kennt er við jom kippur.

Ólýsanleg grimmd

Liðin var rétt hálf öld frá innrásinni í Ísrael sem markaði upphaf stríðsins sem hófst á friðþægingardegi gyðinga, þegar íbúar í suðurhluta Ísraels, nærri Gazaströndinni, vöknuðu við ærandi gný frá sprengjuvörpum og eldflaugum. Fólk á þessum slóðum er vant því að þurfa reglulega að leita skjóls í lofvarnarbyrgjum og hélt þangað að vanda en fáeinum mínútum síðar heyrðust byssuhvellir hvarvetna í nágrenninu, hávaðinn færðist nær og raddir heyrðust hrópa var á arabísku. Hafin var innrás hermdarverkamanna.

Myndskeið af því sem gerðist á næstu mínútum dreifðust eins og eldur í sinu í heimsbyggðina: Þungvopnaðir menn á pallbílum óku um ísraelskar byggðir og skutu á alla sem á vegi þeirra urðu. Hörmungarfréttir héldu áfram að berast. Móðir greindi frá því að sonum hennar hefði verið rænt og þeir fluttir yfir landamærin til Gazastrandarinnar, en annar var aðeins tólf ára að aldri. Fleiri frásagnir lýsa óstjórnlegu grimmdaræði; ungum hjónum tókst að fela tíu mánaða gamla tvíbura sína. Sjálf voru þau myrt en börnin fundust á lífi.

Tala fallinna og særðra hækkaði næstu daga þegar sífellt fleiri lík fundust. Hermdarverkamenn fóru að Be‘eri, litlu samyrkjubúi, þar sem um þúsund manns bjuggu, gengu hús og húsi og myrtu alls um tíunda hluta íbúanna. Mannskæðust var árásin á tónlistarhátíð nærri Reim-samyrkjubúinu. Þar voru 260 skotnir til bana.

Líkt og fyrir hálfri öld kom innrásin nú Ísraelsmönnum í opna skjöldu. Annað er þó gerólíkt og um leið ógnvænlegra ― mannfallið er einkum meðal óbreyttra borgara. Alls voru yfir 1300 manns myrtir í ríki sem telur aðeins tíu milljónir íbúa og til viðbótar voru 3300 særðir. Samanborið við fólksfjölda í Bandaríkjum myndi þetta jafngilda tólfföldu því mannfalli sem varð í hermdarverkaárásunum 11. september 2001. Þetta er meira mannfall en í öllum átökum Ísraela og Palestínuaraba undanfarna tvo áratugi samanlagt. Aldrei fyrr hefur orðið viðlíka mannfall óbreyttra ísraelskra borgara, en undanfarna daga hefur verið rifjað upp þegar Arabar myrtu 127 menn nærri landnemabyggðinni Kfar Etzion í sjálfstæðisstríði Ísraelsmanna 1948.

Þessar óhuganlegu tölur eru dregnar saman í ýmsum erlendum miðlum og bent á að ekki voru allir hinir myrtu Ísraelsmenn; fólk af mörgu þjóðerni lét lífið í árásunum. Þá voru heldur ekki allir þeir Ísraelsmenn sem myrtir voru gyðingar; en hvað sem því líði þá þurfi að fara aftur til daga útrýmingarherferðar nasista í síðari heimsstyrjöldinni til að finna dag þar sem jafnmargir gyðingar hafa verið myrtir.

Hamas er ISIS

Ekki hefur staðið á forystumönnum hins vestræna heims að fordæma afdráttarlaust morðæðið en á sama tíma er óhugnanlegt að fylgjast með öfgafólki víðs vegar um heim fagna grimmdarverkunum. Eðlilega hafa allir réttsýnir menn samúð með óbreyttum borgurum sem hafa orðið fyrir hörmungum stríðsátaka, hvort sem þeir eru Palestínuarabar, Ísraelsmenn eða af öðru þjóðerni, en allir siðmenntaðir menn fordæma grimmdarverk Hamasliða. Að lýsa yfir stuðningi við samtök á borð við Hamas lýsir fullkominni lágmenningu og eymd.

Bandarísk-sómalska baráttukonan Ayaan Hirsi Ali var afdráttarlaus í Daily Mail í vikunni sem leið; Hamas væri engu skárra en íslamska ríkið, sem eru líklega einhver verstu harðstjórnaröfl síðari alda. Hún segir Hamas ekki einvörðungu óvin Ísraels heldur líka andstæðing gyðinga, sömuleiðis Palestínuaraba og ógn við frið og frelsi. Í reynd séu þeir óvinur vestrænnar siðmenningar.

Svæsið gyðingahatur

Víða á Vesturlöndum hafa róttækir íslamistar og áhangendur þeirra fagnað morðunum. Sér í lagi hefur þetta vakið óhug í Þýskalandi. Dagmar Rosenfeld, aðstoðarritstjóri Welt, ritar grein sem birtist í fyrradag þar sem hún gerir að umtalsefni gyðingahatur í Þýskalandi samtímans; þeir neyðist til að fela trúartákn af ótta við að veist verði að þeim á almannafæri. Gerðar hafa verið tilraunir til að brenna samkunduhús gyðinga og víða í Berlín hafa Davíðsstjörnur verið málaðar á heimili gyðinga, nokkuð sem vekur upp óhugnanleg hugrenningatengsl við ofsóknir gegn gyðingum á fjórða áratug síðustu aldar. Og Ulf Poschardt, aðalritstjóri Welt, fjallar sömuleiðis í grein sem birtist á föstudaginn var um þá ógn sem steðjar að gyðingum í Evrópu. Hér sé ekki um menningarstríð að ræða heldur verði Þjóðverjar að gera upp við sig hvort þeir vilji vernda réttarríkið og frjálslynd vestræn gildi. Gyðingahatrið sé síður en svo bundið við þröngan hóp íslamskra öfgamanna ― öll merki sýni að það sé verulega útbreitt. Hundruð lögreglumanna þurfi að standa vörð við samkunduhús gyðinga og minnisvarða um útrýmingarherferð nasista. Þá séu samfélagsmiðlar og athugasemdadálkar fjölmiðla stútfullir af svæsnu gyðingahatri.

Poschardt gerir líka að umtalsefni róttæklinga á Vesturlöndum sem margir taki upp hanskann fyrir íslamska öfgamenn. Ayaan Hirsi Ali kallar þá nytsama fáráðlinga sem í reynd séu að skaða það fólk sem þeir telja sig vera að verja. Verstu fórnarlömb Hamas séu óbreyttir borgarar á Gazaströndinni.

Stríðsaðilar verða með engu móti lagðir að jöfnu. Vitaskuld kallar stríðið nú á enn frekari hörmungar en eins og höfundur forystugreinar nýjasta heftis tímaritsins Der Spiegel orðar það þá má ekki gleymast í þeim átökum, sem harðna með degi hverjum, að þetta stríð geysar að ósk forystu Hamassamtakanna. Yfirlýst markmið þeirra er hið sama og klerkastjórnarinnar í Teheran: Útrýming Ísraelsríkis ― en fyrir sömu öflum eru ríki hindúa og kristinna næstu skotmörk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …

Sigmundur Ernir skrifar: Það sem helst hann varast vann …
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
15.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun

Sigmundur Ernir skrifar: Drög að ferðamannamengun
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar