Þeir sem elska vín, hvort sem þeir drekka eins og svín eða ekki, hafa ekki notið þess til fulls til þessa, sama hvað þeir halda sig vita um vínmenningu.
Flest vitum við að rauðvín þarf að anda áður en við drekkum það og gjarnan er það gert í þar til gerðum karöflum svo það nái að oxast. Það er þó verra þegar ekki stendur til að drekka alla flöskuna.
Hins vegar þurfa ekki öll vín að anda. Hvítt vín og rósavín má drekka strax, jafnvel úr flöskunni, en það er rauðvínið sem þarf að dekra aðeins við og gefa því tíma til að anda svo bragð þess fái betur notið sín.
The Mirror greinir frá því að með því að nota mjólkurfreyðara er hægt að mýkja rauðvínið og ná betur fram undirtónum þess.
Þegar mjólkurfreyðarinn er notaður þarf að hafa í huga að létt vín á borð við Pinot Noir þarf minni öndun á meðan Merlot, Tempranillo og önnur vín með miðlungs fyllingu þurfa lengri tíma. En fyllri vín eins og Cabernet Sauvignion þurfa enn lengri tíma. Því ætti að freyða léttu vínin minnist og þau fyllstu lengst.
Vínsérfræðingar sem mæla með þessari aðferð taka skýrt fram að hér er verið að tala um mjólkurfreyðara, þessa litlu þeytivél sem fólk heldur á en ekki flóara sem hitar líka. Þessi aðferð sé fullkomin þegar aðeins stendur til að drekka eitt glas úr vínflöskunni. Þar með má spara restina þar til síðar, en samt ná fram þeim kostum sem fylgja því að láta vínið anda.
Aðeins þarf að setja freyðarann ofan í vínglasið og leyfa honum að vinna sína vinnu þar til forða hefur myndast.
„Vínið nær að anda með því að vera þeytt með súrefni og svo myndast smá froða sem hverfur þó fljótlega. Það sem gerist strax er að þú ferð að finna mikla lykt og svo þegar þú smakkar vínið þá færðu þessi mjúku ríku bragðtóna sem vínið fær með því að anda,“ segir sérfræðingurinn Josh í samtali við Mirror.