fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Eyjan

Ný bók Sigmundar Ernis: Mogginn ríkisstyrktur upp á 10 milljarða – varaformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði leiðarana

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 22. október 2023 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Ernir Rúnarsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, settist niður eftir að blaðið kom út í síðasta sinn 31. mars síðastliðinn og leit yfir farinn veg. Sigmundur á ríflega 40 ára feril að baki í íslenskum fjölmiðlum og hefur víðast komið við, nema þá kannski helst á Morgunblaðinu. Trútt er um að tala að þar setur Morgunblaðið niður.

Nú eftir helgina kemur út bók, Í stríði og friði fréttamennskunnar, þar sem Sigmundur Ernir fer yfir sinn feril. Hann fer yfir fyrstu sporin, sem voru stigin á Vísi og Dagblaðinu Vísi, DV, og dregur upp mynd af heimi sem væntanlega er nokkuð framandi í dag. Á þessum árum sátu ritstjórar Vísis og Morgunblaðsins þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins til að fá línuna og gæta þess að falla ekki út af-henni. Ekki eru nema nokkrir áratugir síðan varaformaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði leiðarana í Vísi og fékk greitt fyrir.

Við grípum niður í fimmta kafla bókarinnar:

Svo enn sé vitnað til Sveins R. Eyjólfssonar þá var það mikið verk á sínum tíma að slíta tengslin við flokksræðið, enda lágu leyndir þræðir þess víða um allar ritstjórnir.

Eitt gleggsta dæmið er þegar Sveinn komst að því, nokkrum misserum eftir að hann hafði tekið við framkvæmdastjórn Vísis, að ritstjóra blaðsins var ekki ætlað að skrifa leiðara blaðsins. þeir komu utan úr bæ.

Hann kveðst hafa komist að þessu af því að hann þurfti að borga fyrir leiðarana í gegnum Ingimund Sigfússon, einn af hluthöfunum í Reykjaprenti, útgáfufélagi Vísis, en með eftirgrennslan hafi komið í ljós að Jóhann Hafstein var höfundur leiðaranna. Hann var þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherra – og hafði verið náinn vinur Sigfúsar Bjarnasonar í Heklu, föður Ingimundar.

Sveinn segir að sér hafi fundist þetta vera einkennilegt og spurði Jónas vin sinn Kristjánsson hvort hann gæti ekki allt eins skrifað þessa leiðara í blaðið. Og það varð úr. Sveinn hleypti í sig kjarki og sagði Jóhanni Hafstein upp, svo úr varð hvellur í flokksklíkunni. Þó það nú væri.

Raunar var varaformanni Sjálfstæðisflokksins áfram borgað fyrir leiðaraskrifin eftir að hætt var að birta þau, svo sem Ingimundur staðfesti síðar í samtali við Svein, því ekki mátti svo hátt skrifaður flokkspostuli missa spón úr aski sínum.

En þar með fór blaðið líka út af línunni.

Jónas Kristjánsson skrifaði forystugreinar sem bragð var að og undan sveið. Hann lét ekki nokkurn mann segja sér fyrir verkum – og hélt sínu striki upp frá þessu, eins og vargur í véum.

En það hrikti í stoðunum fyrir vikið. Sveinn segir að um þetta leyti hafi heyrst orðrómur um að einhverjir pótintátar innan bændasamtakanna hefðu útbúið ódulbúin hótunarbréf um að hætt yrði viðskiptum við Heklu ef ekki yrði breyting á landbúnaðarskrifum Vísis. Bændum yrði beinlínis fyrirskipað að hætta að kaupa Land Rover jeppa af þessu bílaumboði, ef ekki kæmist skikk á skrif blaðsins.

En Jónasi varð ekki breytt og blaðinu ekki heldur.

Styrmir Gunnarsson orðar þetta ágætlega í bók sinni, Í köldu stríði, en þeir tveir, Jónas og Sveinn, hafi breytt Vísi á þann veg „að blaðið varð fleinn í holdi manna innan Sjálfstæðisflokksins,“ eins og Moggaritstjórinn orðar það, kjarnyrtur og spakur.

Svo Jónas var á endanum rekinn, í óþökk Sveins, en stjórn Reykjaprents og hluthöfum í blaðinu var einfaldlega stillt upp við vegg af valdaklíku Sjálfstæðisflokksins.

Það lá í loftinu nokkrum dögum seinna að Sveinn og Jónas myndu stofna nýtt dagblað, því hvorugur gat sætt sig við yfirgang af þessu tagi. En Sveinn var varaður við. Hann var kallaður á fund Geirs Hallgrímssonar, formanns flokksins og forsætisráðherra þar sem hann var beðinn um að hætta þessu blaðabrölti sem væri bara vitleysa sem hann sjálfur gæti beðið skaða af.

„Ég er að stofna blað, af hverju ætti ég að hætta við það?“ spurði Sveinn.

„Af því að ég er að biðja þig um það,“ svaraði Geir.

„Því miður get ég ekki orðið við því,“ sagði þá Sveinn.

Geir varð þungur á brún – og bætti við: „Eitt að lokum, Sveinn, gerðu ekkert sem getur skaðað Sjálfstæðisflokkinn eða sjálfan þig.“

„Þakka þér fyrir aðvörunina,“ sagði Sveinn og gekk út.

Mogginn styrkur af ríkisbankanum

Sigmundur Ernir fjallar einnig um samtímann og við grípum niður í sjötta kafla þar sem hann fjallar um ríkismiðilinn, Morgunblaðið:

Eftir stendur þá eitt dagblað, Morgunblaðið, sem hefur einnig marga fjöruna sopið. Áætlað er að íslenskir viðskiptabankar hafi að minnsta kosti afskrifað 9,4 milljarða króna vegna fjárhagserfiðleika þess eftir að það lenti undir í samkeppninni við Fréttablaðið á þessari öld og fór út í óraunhæfar fjárfestingar á sama tíma með smíði stórhýsis í Hádegismóum og nýrri og afar fullkominni Heidelberg-prentvél sem ekki eru not fyrir nema í hálftíma á sólarhring, en sagt var að hún, ein og sér, hefði kostað á við skuttogara.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans segir í einni samantekta sinna að Árvakur, eigandi Morgunblaðsins og tengdra miðla, hafi ekki átt fyrir launum starfsfólks í desember 2008 og hafi verið kominn upp á náð og miskunn Íslandsbanka, sem þá var orðinn ríkisbanki. Stjórn bankans hafi afráðið að afskrifa um um 4,5 milljarða af skuldum félagsins árið 2009, sem jafngildir 7,8 milljörðum króna á núvirði. En það hafi ekki dugað til, því grípa hafi þurft til annarrar lotu afskrifta árið 2011, þá upp á einn milljarð króna, eða sem nemur 1,6 milljörðum króna á núvirði.

Ríkisbankinn afskrifaði því samtals hátt í tíu milljarða króna af  skuldum Árvakurs á gengi dagsins í dag.

Mogginn var því tæknilega gjaldþrota undir lok fyrsta áratugar aldarinnar, þótt hann hafi ætíð verið í eigu helsta eignafólks Reykjavíkur, svo sem voldugustu og ríkustu heildsalanna, þar á meðal ættarveldis Geirs Hallgrímssonar sem var stjórnarformaður Árvakurs frá 1969 til 1986 á sama tíma og hann var formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og síðar utanríkisráðherra, en líklega er það einsdæmi á Vesturlöndum að valdamesti maður landsins hafi einnig stjórnað stærsta málgagninu á sama tíma.

En það er eftir öðru.

Vitað er að forráðamenn Sjálfstæðisflokksins voru á nálum vegna þess hversu illa var komið fyrir málgagninu undir árslok 2008. Ráðherrar Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Geirs H. Haarde heyrðu þessa kveinstafi á ríkisstjórnarfundi, skömmu eftir að efnahagshrunið reið yfir. En þá munu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa étið upp sömu tugguna hver á eftir öðrum í örvinglan sinni: „Það má bara má ekki fara með Moggann í þrot,“ var þar haft á orði, en harmagráturinn hljómaði eins og móðursýkiskast að sögn tilhlýðenda. Fyrir utan Geir sátu þá hægra megin við borðið þau Árni M. Mathiesen, Björn Bjarnason, Guðlaugur Þór Þórðarson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, en Björn var fyrrum aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins.

Það varð sumsé að bjarga blaðinu. Opna pilsfald ríkisins.

Og Ættarveldið brást heldur ekki á ögurstundu. Til viðbótar ríflegri ríkiaðstoðinni tók það að sér að greiða niður árlegt tap Árvakurs á komandi tímum. Í meira en tvo áratugi hefur auðmaður gengið undir auðmanns hönd til að halda prentun þess gangandi, einatt og akkúrat þeir sem hafa séð hagsmunum sínum best borgið með dagblaði sem er ófeimið við að þakka fyrir stuðninginn og meðhaldið.

Stórtækir útgerðarmenn, sem hafa hvað mestan hag af óbreyttu fiskveiðistjórnarkerfi, hafa verið fyrirferðarmestir í fjárstuðningi við Morgunblaðið á síðustu árum. Þeir keyptu blaðið með manni og mús eftir hrun.

Þórður Snær Júlíusson orðar þetta svo í samantekt sinni: „Nýju eigendurnir voru að uppistöðu vellauðugir útgerðarmenn með áhuga á því að hafa áhrif á þjóðmálaumræðuna út frá eigin hagsmunum.“

Og Óskar Magnússon, sá hinn sami og tók á móti skrifara þessara orða í einum bása Vísis sumarið 1981, var alls ófeiminn við að segja frá þessu plani þegar hann settist niður hjá honum í viðtalsþættinum Mannamáli á Hringbraut haustið 2016.

Þar lýsir hann því beinlínis hvernig útgerðarfélög hefðu keypt útgáfufélag Morgunblaðsins af Íslandsbanka árið 2009 sem vel brýnt vopn í pólitískri og hagsmunatengdri baráttu, en sjálfur var hann um árabil stjórnarmaður í Samherja, einu öflugasta útgerðarfélagi landsins, og síðar formaður Eimskips sem er að stórum hluta í eigu sama útgerðarrisa.

Hann talar enga tæpitungu í viðtalinu og segir þar nýju eigendurna hafa vitað það með vissu hvað þeir voru að gera með blaðakaupunum.

„Menn voru alveg með skýra sýn,“ segir Óskar, sem varð útgefandi Morgunblaðsins eftir kaupin, allt til ársloka 2014. „Eigendur blaðsins voru með svona þrjú mál sem þeir vildu fá öðruvísi tök á í þjóðfélaginu. Það voru Icesave, fyrst og fremst, ESB og svo sjávarútvegsmál. Við vitum árangurinn af Icesave, og ég þakka það Morgunblaðinu mjög, og við vitum hvar ESB er statt, en sjávarútvegsmálin eru enn þá í óvissu og uppnámi og það þarf auðvitað að finna á þeim einhvern sæmilegan sáttaflöt við þjóðina. Ég starfa nú í útgerð þannig að ég tala þannig líka, en ég tel að útgerðin þurfi líka að skilja þetta,“ segir Óskar í Mannamáli, gegnt sínum gamla sessunauti á Vísi.

Og þegar þeir fyrrum vinnufélagarnir skiptast á orðum um það hvort Morgunblaðið megi heita hagsmunagæslublað í ljósi þessara orða hans, svarar Óskar að bragði: „Sjálfsagt að einhverju leyti. En það er svo óþægilegt að tala um það.“

Það var og.

En þá liggur það líka fyrir að svona er komið fyrir eina dagblaðinu

á Íslandi.

* * *

„Í raun og sann hefur Mogginn verið ríkisrekinn,“ hafði Helgi Magnússon á orði á einum af síðustu stjórnarfundum Fréttablaðsins þar sem farið var yfir samkeppnisstöðuna.

Og líklega hafði hann nokkuð til síns máls.

Hann vildi meina að Fréttablaðið hefði á sínum líftíma keppt við tvö stór ríkisrekin fjölmiðlafyrirtæki, annars vegar Ríkisútvarpið sem hefði þegið vel yfir 200 milljarða af skattfé borgaranna í samkeppni við einkamiðla og hins vegar dagblað sem hefði fengið samkeppnisforskot frá ríkisbanka upp á nærfellt tíu milljarða króna.

„Þetta er vitanlega algerlega galin staða,“ sagði stjórnarformaðurinn, en útgáfufélag Fréttablaðsins hefði aldrei fengið neinar niðurfellingar skulda í boði ríkisins og heldur ekki sóst eftir þeim.

Ólíkt helsta keppinautnum.

Fleiri brot úr bók Sigmundar Ernis munu birtast á næstu dögum hér á Eyjunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á