Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Íran, sendi í dag kuldalega viðvörun til Bandaríkjamanna varðandi átökin milli Ísrael og Hamas sem hann telur að gætu leitt til allsherjarstríðs í heimshlutanum.
„Ég vara Bandaríkin og staðgengil þeirra (Ísrael) við að ef þeir stöðva ekki glæpina gegn mannkyninu og þjóðarmorðin í Gaza, þá er allt mögulegt á hverri stundu og heimshlutinn gæti orðið stjórnlaus,“ sagði ráðherrann á blaðamannafundi með kollega sínum frá Suður-Afríku, Naledi Pandor, í Tehran.
Ummælin féllu í kjölfar linnulausra loftárása Ísrael á Gaza í nótt, þar sem 80 eru sagðir hafa fallið, auk þess sem tveir flugvellir í Sýrlandi og moska á Vesturbakkanum urðu fyrir flugskeytum Ísraelshers.
Þá er ástandið á landamærum Ísrael við Líbanon mjög viðkvæmt. Íbúar við landamærin hafa sumstaðar yfirgefið heimili sín en Ísraelsher og Hezbollah-samtökin líbönsku hafa skipst á flugskeytaárásum yfir landamærin. Ljóst er að lítið þarf til svo að átök milli þessara aðila stigmagnist.
Nir Barkat, efnahagsráðherra Ísrael, lét hafa eftir sér að Ísrael myndi „eyða“ Hezbollah-samtökunum ef að frekari átök brjótast út og varaði yfirvöld í Íran við að kynda undir ófriðabálið. Það myndi einfaldlega þýða að Ísrael beini spjótum sínum að Íran.
Útskýrði Barkat orð sín við breska miðilinn Mail on Sunday á þá leið að áætlun Íran væri að herja á Ísrael úr öllum áttum. Ef að sú áætlun raungerist þá muni Ísrael ekki aðeins verja sig á þeim vígsstöðvum heldur einnig ráðast að „höfði snáksins, Íran.“