Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, verður alls ekki ósáttur ef varnarmaðurinn Sergio Ramos fagnar marki í dag gegn sínu fyrrum félagi.
Ancelotti og Ramos þekkjast vel en þeir unnu saman hjá Real þar til sá síðarnefndi fór til Paris Saint-Germain og svo Sevilla.
Ramos er varnarmaður sem á það svo sannarlega til að skora mörk og er velt því fyrir sér hvort hann muni fagna gegn fyrrum félagi sínu.
Ancelotti hugsar lítið út í það og segir að Ramos megi gera það sem hann vill ef hann skorar í leik dagsins.
,,Það verður gaman að hitta hann aftur, ég er mikill aðdáandi. Ég er að hluta til hér í dag vegna Sergio Ramos,“ sagði Ancelotti.
,,Ef hann hefði ekki skorað sigurmarkið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar væri ég örugglega ekki hér. Ég er viss um að hann muni spila vel og ef hann skorar mark þá má hann gera það sem hann vill.“