Síðastliðinn föstudag var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem héraðssaksóknari hefur höfðað gegn þremur mönnum fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot.
Einn mannanna er Spánverji, fæddur árið 2000, annar er frá Aserbaísjan og er fæddur 1981, en sá þriðji er búsettur í Seljahverfi, ber hann þó erlent nafn; sá er fæddur 1995.
Mennirnir eru sakaðir um að hafa í félagi staðið að innflutningi á tæplega 2,5 kg af kókaíni sem hafði 81% styrkleika, í júlí síðasta sumar. Fíkniefnin voru ætluð til söludreifingar hér á landi.
Spánverjinn kom hingað sem farþegi með flugi frá München í Þýskalandi og tilkynnti farangursþjónustu að ferðataskan hans væri týnd. Ferðataska mannsins kom með öðru flugi til Keflavíkurflugvallar sama kvöld. Við tollskoðun fundust fíkniefnin falin undir fölskum botni ferðatöskunnar. Lögregla lagði hald á efnin og skipti þeim út fyrir gerviefni.
Ferðataskan var flutt til dvalarstaðar mannsins, að Snorrabraut. Þar meðhöndluðu mennirnir þrír efnin og komu ferðatöskunni fyrir í bíl í eigu þess sem er búsettur hérlendis. Voru mennirnir handteknir í húsnæðinu við Snorrabraut.
Þess er krafist að þeir verði allir dæmdir til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Auk þess er krafist upptöku á fíkniefnunum, haldlögðum fjármunum, iPhone síma, minnislykli og umræddri ferðatösku.