fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Villta vestrið á íslenskum leigumarkaði

Eyjan
Laugardaginn 21. október 2023 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvernig stendur á því að aftur og aftur berast fréttir af því fólk búi hér í ósamþykktu húsnæði þar sem brunavörnum er ábótavant og æ fleiri borga fyrir það með lífi sínu? Það er beinlínis óþolandi að vita að óábyrgir leigusalar komist upp með að leigja fólki á okurverði án þess að gera neitt til að tryggja öryggi þess. Raunar eru alls ekki nýjar fréttir að leigumarkaðurinn á Íslandi sé að stórum hluta drifinn áfram af okri, undirokun og níðingsskap þótt vissulega séu til ábyrgir og sanngjarnir leigusalar. Stefna stjórnvalda hér á landi hefur allt of lengi verið sú að allir eigi að búa í eigin húsnæði og þess vegna lítið verið gert til að huga að og byggja upp annars konar valkosti.

Flestallir byrja sinn búskap í leiguhúsnæði en koma sér þaðan eins fljótt og þeir geta því óöryggið er mikið og valkostir fáir. Fyrir fjölskyldufólk er ekkert vit í að hrekjast hverfi úr hverfi með börn á skólaaldri og enginn vill búa við það. Leiguverð hefur sömuleiðis alltaf verið mjög hátt hér og margir festast á leigumarkaði því enginn möguleiki er að leggja fyrir þegar stærstur hlut teknanna fer í að tryggja sér þak yfir höfuðið. Í þeirri stöðu eru engir góðir kostir. Hvers vegna þetta er svona er erfitt að segja. Vissulega er fasteignaverð hátt, fasteignagjöld sömuleiðis og viðhaldskostnaður á húsnæði mikill. Þótt svo sú sé raunin er vandséð að einhverrar sanngirni sé gætt þegar ósamþykktar íbúðakompur eru leigðar á tugi þúsunda.

Reynt hefur verið að setja húsaleigulög til að tryggja rétt leigjenda og leigusala, greiða fólki húsaleigubætur og skattar teknir af leigutekjum. Ekkert af þessu virðist virka í raun þegar út á hinn stjórnlausa leigumarkað á Íslandi kemur. Leigjendur eru neyddir til að gefa upp lægri leigu til að auka enn frekar hagnað leigusalanna og jafnframt minnka eigin rétt til húsaleigubóta. Margir eru neyddir til að taka þátt í kostnaði við viðhald húsnæðisins sem þeir búa í, að öðrum kosti fengist ekki lagað það sem á vantar og þrátt fyrir leigusamninga geta leigusalar enn sagt fólki upp húsnæðinu með litlum fyrirvara. Það tíðkast einnig að fólki sé gert að greiða háar tryggingaupphæðir til að leigusalar geti mætt skaða ef skemmdir verða á húsnæðinu af völdum leigjenda, en þær fáist ekki greiddar til baka þótt íbúðin sé afhent í sama eða svipuðu ástandi og við upphaf leigusamnings.

Auðvitað þekkjast einnig vondir leigjendur og margir leigusalar hafa setið upp með tjón af þeirra völdum en það réttlætir ekki þessa ómögulegu stöðu sem er á þessum markaði. Stundum mætti halda að litið væri niður á leigjendur í þessu landi, að þeir séu taldir undirmálsfólk sem hafi klúðrað tækifærinu til kaupa á eigin húsnæði með því að sóa fjármunum í eitthvað annað. Þetta er viðhorf sem þarf að breyta. Ástæður þess að fólk er á leigumarkaði eru margar og margvíslegar og ekkert að því að kjósa að fjárfesta í öðru en húsnæði.

Allt frá því að fólk neyddist til að byggja braggana sem hernámsliðið skildi hér eftir hefur íslenskur leigumarkaður einkennst af ósanngirni. Stjórnvöld hafa ekki viljað bregðast við því markaðsöflin eiga að ríkja frjáls og leiðrétta allar skekkjur. Þegar fólk lætur hér lífið ítrekað í ósamþykktu og óíbúðarhæfu húsnæði beinlínis vegna þess að þar er brunavörnum áfátt er kominn tími til að gera eitthvað. Sett hafa verið lög um hvaðeina er varðar húsleigu og samband leigusala og leigutaka nema leiguþak. Er ekki kominn tími til að finna leiðir til að hemja óðaverðbólgu leigumarkaðarins og alfarið banna að fólki sé boðið upp á að borga fyrir húsnæði sem stenst engar þær kröfur sem gerðar eru til mannabústaða?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim