Á Vísir.is er því slegið fram að Eiður Smári Guðjohnsen gæti verið að snúa aftur í þjálfun en nú sem aðstoðarþjálfari hjá KR.
Valur Páll Eiríksson blaðamaður á Vísi skrifar um þetta og segir að hann komi til greina sem aðstoðarmaður Ólafs Jóhannessonar hjá KR.
KR leitar að þjálfara en þrjú efstu nöfn á blaði tóku ekki starfið, Óskar Hrafn Þorvaldsson, Halldór Árnason og Jökull Elísabetarson.
KR ákvað að láta Rúnar Kristinsson fara en á Vísir.is er svona sagt frá stöðu mála. „Sagan sem heyrist hvað hæst úr Vesturbænum þessa dagana er að KR hyggist ráða fyrrum landsliðsþjálfarann Ólaf Jóhannesson og að goðsögnin Eiður Smári Guðjohnsen, sem lék með KR sumarið 1998, verði honum til aðstoðar. Eiður Smári var aðstoðarþjálfari Arnars Þórs Viðarssonar með U21 og A-landslið karla og þjálfaði einnig FH,“ skrifar Valur Páll.
Ólafur Jóhannesson þvertekur hins vegar fyrir þetta á Vísi og segist ekki hafa fengið neitt símtal frá KR. Eiður Smári og Ólafur þekkkjast vel frá því að Ólafur var landsliðsþjálfari og Eiður Smári leikmaður liðsins.
Eiður Smári var síðast þjálfari FH en hætti þar sumarið 2022, Eiður tók einmitt við FH af Ólafi Jóhannessyni sem kláraði tímabilið 2022 með Val.