fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Hann var í vinnunni en hitti þá mann sem breytti lífi hans

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 21. október 2023 16:03

Walter Tavares árið 2017. Mynd: Wikimedia-Erik Drost

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Walter Samuel Tavares da Veiga fæddist á Grænhöfðaeyjum í mars 1992 en Grænhöfðaeyjar eru eyjaklasi sem er vestan við meginland Afríku.

Hann gengur undir gælunafninu Edy og til styttingar er hann yfirleitt kallaður Edy Tavares eða Walter Tavares. Hann er kominn af mjög hávöxnum manni en faðir hans var 2,03 metrar á hæð. Tavares átti ósköp hefðbundna æsku af strák sem ólst upp á Grænhöfðaeyjum að vera. Hann gekk í skóla, vann í verslun ömmu sinnar að skóladeginu loknum og spilaði strandfótbolta. Það var einmitt þegar hann var staddur í vinnunni sem að á vegi Tavares varð maður sem átti eftir að breyta lífi hans.

Þegar þessi örlagaríki fundur átti sér stað var Tavares 17 ára gamall og orðinn enn hærri en faðir sinn, 2,16 metrar.

Heimildum ber þó ekki saman um hver þessi maður sem átti eftir að verða svo mikill örlagavaldur í lífi Tavares næakvæmlega var. Sumar heimildir segja að um hafi verið að ræða þýskan ferðamann sem er sagður hafa ákveðið, þegar hann sá hversu hávaxinn þessi unglingspiltur var, að benda vini sínum á hann. Þessi tiltekni vinur var Raul Rodriguez sem var yfirmaður akademíu spænska körfuboltaliðsins Gran Canaria sem hefur síðan á miðjum tíunda áratug síðustu aldar átt sæti í spænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Rodriguez fór til Grænhöfðaeyja og hitti Tavares. Hann fékk Tavares á endanum til liðs við akademíu Gran Canaria. Vandamálið var hins vegar að Tavares hafði aldrei spilað körfubolta á ævinni. Hann hafði ekki einu sinni snert körfubolta. Það þurfti því að kenna honum íþróttina frá grunni.

Fór ekki fet án sönnunar

Á heimasíðu NBA-deildarinnar er sagan þó örlítið öðruvísi um hver það var sem hitti Tavares í versluninni á Grænhöfðaeyjum. Þar kemur fram að bílasali á Kanaríeyjum, Joaquin að nafni, hafi hitt Tavares í einni af reglulegum ferðum sínum til Grænhöfðaeyja. Þegar hann hafi komið aftur til Kanaríeyja hafi hann sagt Raul Rodriguez frá þessum afar hávaxna strák sem hann væri viss um að gæti orðið afar öflugur körfuboltamaður og hvatti Rodriguez til að fara til Grænhöfðaeyja og hitta Tavares. Rodriguez hafi hins vegar sagt, með fyrri reynslu í huga, að hann færi ekki fet fyrr en hann fengi að sjá ljósmynd og staðfesta mælingu sem sannaði hversu hávaxinn Tavares væri.

Joaquin hafi því haldið aftur til Grænhöfðaeyja. Hann vissi ekki hvernig hann gæti komist í beint samband við Tavares og hélt því aftur í verslunina þar sem sá síðarnefndi vann og þeir hittust fyrst.

Tavares hafi sannarlega verið á sínum stað í versluninni. Hann hafi orðið forviða þegar Joaquin sagði að hann gæti ætti átt góða framtíð fyrir sér sem körfuboltamaður í ljósi hæðar sinnar. Í frásögninni segir að Tavares hafi orðið svo að orði:

„Viltu að ég spili körfubolta en ekki fótbolta?“

Fyrst að Tavares hafði aldrei spilað körfubolta og ekki einu sinni snert einn slíkan hafi hann talið fullvíst að Joaquin væri að grínast. Joaquin hafi þó á endanum náð að sannfæra unglinginn hávaxna um að honum væri svo sannarlega alvara. Hann hafi tekið mynd af Tavares og fengið staðfesta mælingu á hæð hans og sent til áðurnefnds Raul Rodriguez sem hafi haldið rakleiðis til Grænhöfðaeyja, ásamt meðal annars aðstoðarþjálfara aðalliðs Gran Canaria. Þessi heimsókn hafi síðan endað með því að Tavares varð hluti af akademíu félagsins en fyrst hafi þurft að kenna honum körfubolta.

Hversu seint hann byrjaði hafði líklega sín áhrif

Hver svo sem nákvæmlega það var sem hitti Tavares í versluninni á Grænhöfðaeyjum og benti körfuboltaliðinu á hann, hvort sem það var þýskur ferðamaður eða bílasalinn Joaquin, þá var sá fundur upphafið á því að þessi afar hávaxni 17 ára unglingur sem aldrei hafði snert körfubolta varð atvinnumaður í íþróttinni.

Hér er ekki rými til að rekja atvinnumannaferil Walter „Edy“ Tavares ítarlega. Hann átti eftir að stækka meira og er í dag 2,21 metrar á hæð. Tavares færðist fljótlega úr akademíu Gran Canaria í aðallið félagsins og lék með því í spænsku úrvalsdeildinni. Hann reyndi fyrir sér í bestu körfuboltadeild heims, NBA-deildinni í Bandaríkjunum, en náði aðeins að leika örfáa leiki fyrir Atlanta Hawks og Cleveland Cavaliers. Árið 2017 gekk hann til liðs við spænska stórliðið Real Madrid og hefur leikið með því síðan í úrvalsdeildinni þar í landi og í Evrópudeildinni (e. Euroleague), sterkustu körfuboltadeild Evrópu. Hann hefur einnig leikið fyrir landslið Grænhöfðaeyja í körfubolta.

Ljóst er að hæð og styrkur Walter Tavares er hans helsti kostur sem körfuboltamaður en líklega má segja að hæðin sé að vissu leyti hans helsti veikleiki. Eins og er ekki óalgengt með menn sem eru svo hávaxnir hefur Tavares ekki alltaf verið kvikur í hreyfingum sem hefur þvælst aðeins fyrir honum þegar kemur að sóknarleik. Körfuboltasérfræðingar segja að með góðri þjálfun hafi Tavares náð að verða góður sóknarleikmaður en það hafi vantað aðeins upp á að hann yrði framúrskarandi. Það á líklega sinn þátt í hversu skammlífur ferill hans í NBA-deildinni varð. Velta má því fyrir sér hvort hann hefði ekki orðið ennþá betri í sóknarleik ef hann hefði byrjað fyrr að æfa körfubolta og náð þá fyrr tökum á grunnatriðum íþróttarinnar Kannski hefði hann náð þá enn lengra.

Helsti styrkleiki Tavares sem körfuboltamanns hefur hins vegar verið varnarleikurinn en hann hefur meðal annars þrisvar verið valinn besti varnarmaður Evrópudeildarinnar og 6 sinnum hlotið þá nafnbót í spænsku úrvalsdeildinni.

Hvernig sem litið er á feril Walter Tavares þá blasir við að hann hefur náð ótrúlega langt miðað við hversu seint hann byrjaði að stunda körfubolta. Ef hann hefði hins vegar aldrei hitt manninn, hvort sem það var þýskur ferðamaður eða Joaquin bílasali, í búðinni á Grænhöfðaeyjum, sem kom nafni hans á framfæri við körfuboltaliðið Gran Canaria og sannfærði hann sjálfan um að hann gæti átt framtíð fyrir sér í körfubolta, þá má velta fyrir sér hvort hann hefði yfirhöfuð leitt hugann að því að stunda íþróttina.

Eftir þennan fund varð líf Walter Tavares aldrei samt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum

Nýjar myndir af stórstjörnunni valda miklum áhyggjum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“

Valentína Hrefnudóttir: „Það versta sem gat gerst var að ég myndi prufa þetta og hata þetta“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bandarísk klámstjarna leigði fræga búbbluhótelið á Íslandi en sá rækilega eftir því

Bandarísk klámstjarna leigði fræga búbbluhótelið á Íslandi en sá rækilega eftir því
Fókus
Fyrir 4 dögum

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar

Eiríkur Bergmann með afar persónulega bók – Lýsir ferðalagi frá örvæntingu til sáttar