Það virðist æ líklegra að Kalvin Phillips sé á förum frá Manchester City í janúar.
Miðjumaðurinn gekk í raðir City frá Leeds fyrir síðustu leiktíð en hefur engan veginn tekist að festa sig í sessi í liðinu. Er hann í samkeppni við Rodri um plássið á miðjunni og á hann lítinn möguleika í þeirri baráttu.
Vill hann því fara þangað sem hann fær að spila og nú segir Telegraph að Newcastle og Juventus séu þau lið sem eru líklegust til að berjast um Phillips í janúar. Áhugaverðir kostir fyrir kappann en Newcastle getur boðið honum að vera áfram í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu.
Þrátt fyrir að hafa spilað lítið var Phillips hluti af liði City sem vann þrennuna í vor.