Þetta kom fram í ræðu Bryndísar undir liðnum störf þingsins á Alþingi í gær.
Eins og greint var frá á dögunum lagði Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna, það til að Reykjavíkurborg myndi bjóða Mosfellsbæ og Seltjarnarnesbæ til viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna þriggja.
Hugmynd Lífar féll ekki vel í kramið alls staðar og sagði Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, í samtali við Morgunblaðið í vikunni að slíkar hugmyndir væru tímasóun og tíma borgarstjórnar væri illa varið í þær. Svipað var upp á teningnum hjá Regínu Ásvaldsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ.
Bryndís sagðist skilja vel að borgarfulltrúar í Reykjavík horfi til nágrannasveitarfélaganna þar sem ýmislegt virðist ganga betur í rekstri þeirra sveitarfélaga.
„Ég held að við ættum kannski frekar að huga að því að það kunni að vera hverfi innan Reykjavíkur sem myndu vilja sameinast öðrum sveitarfélögum. Ég hef til að mynda reglulega heyrt í Grafarvogsbúum sem kvarta sáran yfir því að vera hluti af Reykjavík og því kerfi sem þar er boðið upp á, myndu svo gjarnan vilja fá að koma yfir í fallegu Mosfellssveitina og heyra frekar undir bæjarstjórn Mosfellsbæjar,“ sagði Bryndís í ræðu sinni.
Þá sagðist hún líka heyra það á íbúum á Seltjarnarnesi og bæjarfulltrúum þar að kannski sé möguleiki að fólkið í Vesturbænum myndi vilja sameinast íbúum Seltjarnarness í að bæta samgöngumálin. Seltirningar og margir í Vesturbænum hafi kvartað sáran yfir því að það sé algerlega lokað á þá þegar kemur að samgöngumálum og ekki við þá rætt þegar verið er að gera stórtækar breytingar sem hafa áhrif á samgöngur þeirra og öryggismál Seltirninga.
„Ég vil þá frekar beina því til hverfafélaganna í Reykjavík að huga að því hvort þau geti bara hreinlega sagt sig úr Reykjavík og óskað eftir því að koma inn í sveitarfélögin hér í kring sem virðast vera mun betur rekin en höfuðborgin okkar.“
Ræða Bryndísar féll ekki í kramið hjá öllum þingmönnum og kom Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, inn á hana þegar hún steig í pontu. Sagðist Inga ekki geta orða bundist.
„Ég veit ekki betur en að Seltirningar og Mosfellingar séu að koma unnvörpum til að vinna í bænum í Reykjavík. Ég veit ekki betur en að maður hangi á rauðu ljósi endalaust stopp í umferðinni þegar strollan frá Mosfellsbæ er að koma hérna niður í bæ. Ég veit ekki betur. Ég held líka að það væri bara flott að við sameinuðum allan þennan kjarna. Í stað þess að vera að troða landsbyggðarbæjarfélögum með marga tugi kílómetra á milli hvers annars, að reyna að henda þeim í sameiningu, þá væri bara sómi að því að maður standi ekki með aðra löppina í einu sveitarfélagi og hina löppina í öðru sveitarfélagi og móist svo við því að bara hreinlega steypa þessu saman. Það væri kannski bragur að því.“