Sky News skýrir frá þessu og segir að reiknað sé með að einni milljón neyðarpakka verði dreift af matarbönkum í vetur þar sem þörfin fyrir aðstoð verði meiri en nokkru sinni áður.
Á síðasta ári var 904.000 neyðarpökkum dreift. Þá nutu 220.000 börn aðstoðar frá Trussell Trust og 225.000 manns fengu aðstoð í fyrsta sinn frá matarbönkum. Samtökin telja að enn muni bætast við þennan fjölda nú í aðdraganda jóla og fram á næsta ár.
Emma Revie, framkvæmdastjóri samtakanna, sagði að einn af hverjum sjö Bretum svelti því þeir eigi ekki nægilega mikið af peningum til að geta keypt mat. „Við viljum ekki eyða hverjum vetri í að segja að ástandið fari versnandi, en það gerir það,“ sagði hún.