Breska varnarmálaráðuneytið segir í stöðufærslu sinni um gang stríðsins í Úkraínu að Rússar hafi nú hafið samhæfða sókn á mörgum víglínum í austurhluta Úkraínu, gagngert til að ná Avdiivka á sitt vald. Þar er fjöldi úkraínskra hermanna til varna.
Ráðuneytið segir að Rússar hafi lengi beint sjónum sínum að Avdiivka því yfirráð yfir bænum séu nauðsynleg ef takast á að ná fullum yfirráðum yfir Donetsk.
Ráðuneytið segir að svo virðist sem Rússar beiti nú mörgum brynvörðum hersveitum á svæðinu og reyni að umkringja bæinn. Að mati ráðuneytisins er þetta ein mikilvægasta aðgerð rússneska hersins síðan í janúar á þessu ári.
Miðað við upplýsingar Bretanna þá virðist Rússum ekki hafa orðið mikið ágengt við að reyna að ná bænum á sitt vald. Úkraínsku hersveitirnar eru sagðar hafa hrundið árásum þeirra til þessa og að Rússar hafi orðið fyrir miklu manntjóni og misst mikið af hergögnum.