Guðmundur vakti athygli á þessu á Alþingi í vikunni en í gær, 17. október, var alþjóðlegur baráttudagur gegn fátækt.
Guðmundur benti á dæmi um neyðina og las upp bréf frá fátækum Íslendingi sem hann fékk til sín.
„Ég á yfirleitt til mat handa fjölskyldunni fram í miðjan mánuðinn en svo verðum við að leita til hjálparsamtaka eftir matargjöf en vegna heilsubrests er það oft ekki hægt. Ég er að missa húsnæðið mitt vegna tugþúsunda hækkunar á leigu sem fer upp fyrir útborgaðar lífeyristekjur mínar. Hvað á ég að gera? Ég fann eftir langa leit annað húsnæði sem mér bauðst að leigja en varð að borga hundruð þúsunda sem ég átti ekki í tryggingar og bankinn vildi ekki aðstoða mig. Jólin eru fram undan og fáum við aftur eingreiðslu upp á 60.300 kr. skatta- og skerðingarlaust?“
Guðmundur nefndi að matarkarfan hefði hækkað um 12,4% undanfarin ár og sumar matvörur rúmlega tvöfaldast í verði. Þá hafi þeim sem leita hjálpar hjá hjálparsamtökum fjölgað mjög.
„Fátækt fólk er sá hópur sem hefur ekkert svigrúm til að mæta stórhækkuðum og óvæntum kostnaði sem fylgir miklum verðhækkunum vegna verðbólgu,“ sagði Guðmundur sem beindi fyrirspurn til Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags og vinnumarkaðsráðherra um hvað hann væri að gera til að koma í veg fyrir fátækt.
„Er einhver áætlun hjá honum um það að sjá til þess í eitt skipti fyrir öll að fátækt á Íslandi verði útrýmt?“
Ráðherra steig í pontu og byrjaði á að minnast á skýrslu sem forsætisráðuneytið lét vinna um fátækt og Katrín Jakobsdóttir kynnti í síðustu viku. Í henni komi fram að ýmislegt hafi færst til betri vegar síðustu 20 árin og því beri að fagna.
„Við höfum hins vegar séð að það eru fleiri sem leita til hjálparsamtaka, líkt og háttvirtur þingmaður nefndi. Ríkisstjórnin hefur verið að mæta þeim hópum sem minnst hafa í samfélaginu í þeirri dýrtíð sem núna gengur yfir, m.a. með því að ráðast í hækkanir á miðju ári tvö ár í röð í gegnum almannatryggingar, með því að hækka bætur til þeirra sem eru á leigumarkaði, láta barnabætur ná til stærri hóps og svona mætti áfram telja,“ sagði Guðmundur Ingi ráðherra.
Hann bætti svo við að starf væri að fara í gang til að greina betur þær orsakir sem eru fyrir fátækt þannig að hægt yrði að taka með markvissari hætti á þeim málum.