Kjartan skrifar grein á vef Vísis þar sem hann gagnrýnir Landsvirkjun harðlega og segir hana hafa haldið íbúum á svæðinu í gíslingu með yfirvofandi virkjunum í neðri hluta Þjórsár árum saman.
„Við sem efumst um ágæti þessara virkjana höfum kallað eins og hrópandi í eyðimörk. Leikurinn er ójafn, ef leik skal kalla. Landsvirkjun hefur heilu verkfræðistofurnar á launum og hóp lögfræðinga og ýmiss konar sérfræðinga. Við borgum. Við vinnum okkar baráttu kauplaust og í stopulum frítímum. Hvorki hefur verið hlustað á okkur né málsmetandi sérfræðinga t.d. vegna laxastofnsins í Þjórsá. Hjá Landsvirkjun er bara hlustað á það sem hentar. Gallinn er bara sá að það hentar hvorki okkur né náttúru og lífríki,“ segir Kjartan meðal annars.
Hann er afar mótfallinn framkvæmdum við Hvammsvirkjun sem hafa verið í bígerð lengi, en virkjuninni er ætlað að nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar í Þjórsárdal.
„Gleymum ekki að Hvammsvirkjun og aðrar virkjanir í neðri hluta Þjórsár yrðu í byggð, m.a. s. blómlegri byggð. Virkjunin, eins og aðrar virkjanir á svæðinu, eru á virku gosbelti og því umtalsvert meiri líkur á jarðskjálftum, eldgosum og flóðum á þessu svæði en á flestum öðrum virkjanasvæðum. Stór hluti orkuframleiðslu landsmanna er því á virku flóða- og jarðskjálftasvæði. Fleiri virkjanir á þessu hættusvæði ættu ekki að vera inni í myndinni og allra síst í byggð. Það yrðu mistök fyrir náttúru, umhverfi, lífríki og mannlíf samfélagsins,“ segir hann í greininni.
Hann fer ekki ofan af því að verði Hvammsvirkjun að veruleika sé lífríki Þjórsár stefnt í voða og einstöku umhverfi og mörgum náttúruperlum fórnað. Hann veltir líka fyrir sér hvort orkuþörfin sé eins mikil og orkufyrirtæki og hagsmunaaðilar vilja vera láta og segir að við þurfum að hætta að haga okkur eins og við eigum margar ónotaðar jarðir til vara.
„Við höfum verið að misnota náttúru og umhverfi um alllangt skeið. Orkuskipti eru göfugt markmið en við megum ekki einblína á virkjanir í því skyni. Við þurfum öll að slaka á. Spyrjum okkur hvort við getum komist af með minna, t.d. færri utanlandsferðir, færri bíla og að minnka almenna neyslu. Róum okkur aðeins, minnkum neysluna og nýtum betur en hættum að ganga á rétt náttúru og komandi kynslóða.“