Starf Andrea Pirlo hjá ítalska félaginu Sampdoria er ekki í hættu þrátt fyrir að liðið hafi verið í tómu tjóni í ítölsku B-deildinni það sem af er leiktíð.
Pirlo, sem er algjör goðsögn í ítölskum fótbolta, tók við sem stjóri Sampdoria eftir að liðið féll úr úrvalsdeildinni í vor.
Það hefur hins vegar ekkert gengið í B-deildinni og er liðið með 4 stig í næstneðsta sæti eftir níu leiki.
Einn af eigendum félagsins segir starf Pirlo þó ekki í hættu.
„Andrea verður áfram okkar leiðtogi. Hann kemur okkur aftur upp. Hann er stórkostlegur stjóri,“ segir Matteo Manfredi.
Pirlo lék á ferlinum fyrir lið á borð við Juventus, AC Milan og Inter. Þá hefur hann verið við stjórnvölinn hjá Juventus og Fatih Karagumruk í Tyrklandi.