fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Fréttir

Dóra Björt grét á fundi borgarstjórnar og segir borgina þurfa að gera betur – „Ég biðst afsökunar. Við biðjumst afsökunar“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 17. október 2023 16:00

Dóra Björt Guðjónsdóttir Mynd: Aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skýrsla vöggustofunefndar var til umræðu á fundi borgarstjórnar í dag. Í sameiginlegri yfirlýsingu borgarstjórnar sem lögð var fram á fundinum biður borgarstjórn þá einstaklinga sem vistaðir voru sem börn á vöggustofunni Hlíðarenda og vöggustofu Thorvaldsenfélagsins og fjölskyldur þeirra afsökunar á þeirri illu meðferð sem börnin voru beitt og lýst er í skýrslu vöggustofunefndar. Um sé að ræða svartan blett í sögu Reykjavíkurborgar.

Ræður borgarstjórnarfulltrúa voru tilfinningaþrungnar þegar fjallað var um skýrsluna sem var fyrsta mál á dagskrá fundarins. Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata segist ekki hafa komist langt í ræðu sinni áður en hún brast í grát. 

„Mér tókst ekki að komast í gegnum margar setningar án þess að fara að gráta. Kannski skildust orðin mín ekki jafn vel út af því,“ segir Dóra Björt í færslu á Facebook og birtir ræðu sína í heild.

„Þið áttuð betra skilið. Mér þykir frá mínum innstu hjartarótum svo sárt og svo leitt að þið skylduð vera sett í þessar aðstæður. Að samfélagið og hið opinbera hafi brugðist ykkur. Þið voruð saklaus börn og það var skylda hinna fullorðnu að vernda ykkur. Hin fullorðnu brugðust,“ segir Dóra Björt. Segist hún hafa setið heima á fjarfundi með 17 mánaða son sinn lasinn í fanginu þegar skýrslan var kynnt í Borgarráði. 

„Það var einfaldlega of vont að heyra frásagnirnar,“ segir Dóra Björt. 

„Sum börn voru þarna í nokkrar vikur og önnur í marga mánuði. Sum í nokkur ár. Og þarna var framið tengslarof. Framið segi ég vegna þess að það er í raun glæpur gagnvart barni að láta ómálga barn upplifa að það hafi engan til að treysta á. Engan fullorðinn sem talar máli þess, túlkar tákn þess og bregst við,“ segir Dóra Björt sem segir það þyngra en tárum taki að börn í Reykjavík hafi upplifað þessar aðstæður.

„Mér þykir það svo innilega leitt. Ég biðst afsökunar. Við biðjumst afsökunar.“

Segist Dóra Björt hugsa til þeirra barna sem eru á okkar forræði í dag og að fara þurfi yfir núverandi starfsemi borgarinnar, greina hana með gagnrýnum hætti og passa að verið sé að beita þekkingu okkar tíma og standa með börnum. 

„Ég hugsa til þeirra barna sem eru á okkar forræði í dag. Við verðum að standa með þeirra heilbrigði, þeirra velferð, þeirra framtíð. Við eigum að vera þeirra stökkbretti, ekki þeirra þungu hlekkir. Það er okkar ábyrgð. Að vera auðmjúk. Að viðurkenna að enn í dag gætum við verið að gera eitthvað vitlaust sem við ættum að breyta. Það þarf að greina vel. Vegna þess að í dag þá eru enn börn í borginni sem eiga betra skilið og við verðum að finna þau og hjálpa þeim.“

Yfirlýsing borgarstjórnar um skýrslu vöggustofunefndar

Borgarstjórn biður börn sem vistuð voru á Vöggustofunni Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsenfélagsins og fjölskyldur þeirra afsökunar á illri meðferð sem lýst var í skýrslu vöggustofunefndar. Ljóst er að vistun á Vöggustofum hefur í mörgum tilvikum haft afdrifarík áhrif á líf þeirra barna sem þar voru. Þetta er svartur blettur í sögu Reykjavíkurborgar.

Borgarstjórn vill þakka vöggustofunefndinni fyrir sérlega umfangsmikla, vel rannsakaða og rökstudda skýrslu. Borgarstjórn er einnig þakklát hvatamönnunum að því að rannsóknin var unnin, þeim Árna H. Kristjánssyni, Fjölni Geir Bragasyni, Hrafni Jökulssyni, Tómasi V. Albertssyni og Viðari Eggertssyni.

Borgarstjórn tekur heilshugar undir tillögur vöggustofunefndar sem fram koma í skýrslunni. Fyrsta tillagan lýtur að hugsanlegum skaðabótagreiðslum til þeirra sem vistaðir voru á vöggustofunum sem börn. Þau mál eru til meðferðar Alþingis. Önnur tillagan fjallar um geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu til sömu einstaklinga og er til meðferðar hjá Reykjavíkuborg. Sú þriðja beinist að gildandi framkvæmd og eftirliti á sviði barnaverndarmála og er til umfjöllunar í velferðarráði og umdæmisráði barnaverndar. Fjórða og síðasta tillagan lýtur að því að borgarráð taki afstöðu til þess hvort rétt sé að framhald verði á athugun á vöggustofum í Reykjavík.

Eftirfylgni með tillögunum er þegar hafin.

Vandað verði til framhaldsins

Flokkur fólksins tók þátt í sameiginlegri yfirlýsingu borgarstjórnar en gerði auk þess stutta bókun við dagskrárliðinn.

„Fulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að borgarstjórn hafi sameinast um að ráðast í athugun á starfsemi vöggustofa í Reykjavík. Nú þarf að vanda vel til framhaldsins og vinna það sem mest í samráði við þá sem málinu tengjast. Fulltrúi Flokks fólksins telur mikilvægt að frekari athuganir verði gerðar þannig að rannsóknin nái til ársins 1979. Hugur Flokks fólksins er hjá þeim sem þarna voru vistuð sem börn og öðrum þeim sem hafa liðið vegna starfseminnar. Flokkur fólksins þakkar hópnum sem óskaði eftir rannsókninni, þeim Árna H Kristjánssyni, Fjölni Geir Bragasyni, Hrafni Jökulssyni, Tómasi V. Albertssyni og Viðari Eggertssyni.“ segir í bókuninni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“

„Forkastanlegt að atvinnurekendur skuli grafa með þessum hætti undan réttindum launafólks“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“

Ólafur Ágúst spyr hvort Vernd sé einkarekið fangelsi í dulbúningi – „Ákveðin tegund þrælahalds“
Fréttir
Í gær

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var

Öskrin í konunni reyndust á „heldur jákvæðari nótum“ en óttast var
Fréttir
Í gær

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður

Zelenskyy segir að hægt sé að senda erlendar hersveitir til Úkraínu áður en af NATÓ-aðild verður
Fréttir
Í gær

Ákeyrsla á bílastæði eyðilagði framtíðina sem hún stefndi að

Ákeyrsla á bílastæði eyðilagði framtíðina sem hún stefndi að
Fréttir
Í gær

Sigurður Fannar ákærður fyrir morð á dóttur sinni

Sigurður Fannar ákærður fyrir morð á dóttur sinni