Vanlíðan barna getur verið margs konar og sprettur af ólíkum ástæðum, vanlíðan getur verið mikil eða lítil, langvarandi eða tímabundin. En ólík vanlíðan felur samt sem áður í sér marga sameiginlega þætti. Að upplifa vanlíðan felur í sér óánægju með eigin stöðu í lífinu, þrá um að vera annars staðar en hér og nú eða að vera einhver annar en við erum í raun og veru. Að líða illa felur í sér óvirkni, vonleysi og neikvæðar hugsanir sem leiða til neikvæðar sjálfsmyndar og minni trú á eigin getu. Vanlíðan barna á sér margskonar rætur en samt sem áður er mikilvægt að veita henni athygli, gefa barninu tækifæri til að ræða um vanlíðan sína og aðstoða það til að finna sér leiðir til að líða betur. Ef það er ekki gert getur lítil og tímabundin vanlíðan breyst í mikinn og langvarandi vanda.
Of mörgum börnum líður ekki vel í skólanum. Það getur verið vegna þess að sérfræðiþekkingu skortir en það getur líka verið vegna þess að of mikil áhersla er lögð á sérfræðiþekkingu og minni áherslu á mannlega hlýju, skilning og umhyggju. Börnum getur liðið illa í íslenskum skólum vegna þess að of mikið er hlustað á ráð gamalla karla eða of mikið horft á sjónarhorn miðaldra kvenna en fyrst og fremst er það þó vegna þess að ekki er tekið mark á sjónarhorni barna. Börn hafa ekki rödd í íslensku samfélagi, þau fá ekki að segja frá hugmyndum sínum, líðan þeirra skiptir ekki nógu miklu máli, skoðanir þeirra eru ekki virtar og vandamál þeirra talin óveruleg og óviðkomandi því skólakerfi verkferla, starfslýsinga, markmiða og flæðirita sem hinir fullorðnu vilja verja og styrkja.
Skólakerfið nær ekki að bæta úr vanlíðan barna vegna þess að bilið á milli fullorðinna og barna í skólanum er allt of mikið og barninu er mætt í of miklum mæli sem tæknilegu vandamáli en ekki lífrænum veruleika. Þetta birtist í því að barnið hefur engan fullorðinn í skólanum sem það getur leitað til, engan til að setjast niður með og ræða það sem brennur á því. Í því samhengi er ég ekki að tala um bekkjarfundi eða tengsl sem byggja á fyrirmælum og leiðbeiningum heldur raunverulegt samtal þar sem barnið fær svigrúm til að tjá sig á þann hátt sem það telur best og ræða um það sem brennur á því.
Því fyrr sem við mætum hverju og einu barni í skólanum með umhyggju og athygli því fyrr fær það tækifæri til að opna sig fyrir sínum eigin vanda og því fyrr fær það tækifæri til að græða þau sár sem valda barninu vanlíðan. Áföll og vanlíðan í æsku hafa geysileg áhrif á fullorðinsár, þeim vanda verður að mæta á meðan einstaklingurinn er enn þá barn. Áhugasamur, næmur kennari sem hefur innsæi, áhuga og umhyggju til að hlusta og vera raunverulegur hluti af lífi barna getur gert miklu meira en margir sálfræðitímar og fjölmargar greiningar. Ef við tökum betur utan um börnin í skólanum og leyfum hverju einu barni að hafa rými í skólanum getum við í framtíðinni, fækkað átökum sem spretta af reiði, hatri og skilningsleysi og fækkað þeim börnum sem finna þörf til að flýja líf sitt í ýmis konar sjálfs eyðandi hegðun.
Það þarf að breyta sýn á barnið í skólakerfinu, ekki hugsa: „Hvað er eiginlega að þessu barni‘“ eða „Hvað kom eiginlega fyrir þetta barn?“ heldur þurfum við að spyrja okkur hvar raddir barna fá að heyrast og hvaða leiðir þarf að hafa til að koma til móts við hvert og eitt barn í þeirra daglega lífi. Markmiðið ætti að vera að öllum börnum líði vel í skólanum, að öllum börnum sé veitt athygli og umhyggja á hverjum degi og að börn hafi alltaf einhvern fullorðinn að leita til þegar vandamál og vanlíðan koma upp.
Inga Sigrún Atladóttir – höfundur er kennari og höfundur bókarinnar Leiðtogasamfélagið – Reynsluheimar og Mögulegir heimar.