Ásgeir Ólafsson Lie markþjálfi hefur stofnað nýtt framboð fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á Akureyri og auglýsir eftir fólki. Staðarmiðillinn Kaffið.is greinir frá þessu.
Ásgeir var í öðru sæti á lista Kattarframboðsins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2022. Listamaðurinn Snorri Ásmundsson stofnaði það framboð sem viðbragð við hugmyndum sveitarstjórnar Akureyrar um að banna lausagöngu heimiliskatta.
Nærri 400 manns, eða um 4 prósent, kusu Kattaframboðið sem dugði Snorra þó ekki til að komast í bæjarstjórn. Engu að síður náði framboðið vissum árangri því að bæjarstjórn var gerð afturreka með áætlanir sínar.
Ásgeir er tímanlega í sínum áformum því að næstu sveitarstjórnarkosningar eru ekki fyrr en árið 2026.
Í samtali við Kaffið segir Ásgeir að Nýtt Upphaf verði ekki stjórnmálaflokkur. „Engin flokksvinna. Engin flokkakosning. Ekkert samráð. Ekkert flokkapot. Engin pólítík,“ segir hann við Kaffið. Áhersla verði lögð á að fólk taki sjálfstæðar ákvarðanir.