Fjölmennt leitarlið hefur leitað drengsins síðustu tæpu tvo sólarhringa en án árangurs.
VG greinir frá því að nokkur hundruð manns hafi leitað drengsins og þá hafa sporhundar, drónar og þyrlur útbúnar hitamyndavélum verið notaðar.
Leitarsvæðið er umfangsmikið, um 13 ferkílómetrar, en pilturinn mun hafa verið í veiðiferð með fjölskyldu sinni þegar hann hvarf fljótlega upp úr hádegi á sunnudag.
Í gærmorgun fann lögregla sólgleraugu sem talið er að pilturinn hafi verið með á sér. Þau fundust um 700 metrum frá miðpunkti leitarsvæðisins, staðnum sem drengurinn sást síðast á, að sögn Øyvind Hægeland sem fer fyrir leitinni.
Svalt hefur verið í veðri á leitarsvæðinu síðustu tvær nætur en hitinn í fyrrinótt fór niður í fjórar gráður. Fólk sem á sumarhús á svæðinu hefur verið hvatt til að athuga hvort pilturinn hafi leitað þar skjóls.