Claudia sagði frá þessu á TikTok í myndbandi sem vakið hefur talsverða athygli, en hún segir að um hafi verið að ræða lykt sem mynti einna helst á fisk.
„Við vildum ekki beint tala mikið um þetta, enda var þetta eitthvað sem við skömmuðumst okkur fyrir,“ segir hún meðal annars.
Hún segir að þau hjónin hafi leitað hátt og lágt að uppruna lyktarinnar; þau skoðuðu lagnir í baðherberginu við hliðina á herberginu, þrifu salernið og sturtuna en allt kom fyrir ekki. Lyktin var alveg jafn óbærileg og áður, sama hvað þau gerðu.
Hjónin ákváðu svo að athuga hvort einhverjir hefðu sömu sögu að segja með því að slá nokkur vel valin orð inn í leitarvél Google. Og viti menn, það reyndist góð ákvörðun enda fundu þau umræður á netinu þar sem fólk hafði lent í svipuðu.
En hvað var það sem gat valdið þessu? Jú, sumir bentu á að gott væri að athuga hvort upprunann væri mögulega að finna í raflögnum inni í veggjunum. Það gerðu hjónin og í innstungu í veggnum fundu þau vír sem hafði losnað og var plastið utan um vírinn búið að bráðna.
„Aldrei hefði ég getað giskað á þetta,“ segir Claudia sem segist þakklát fyrir að eldur hafi ekki kviknað.
Hvetur hún fólk til að vera vakandi fyrir þessu ef það finnur skrýtna lykt með óljósan uppruna.