Íslenskar konur standa saman og leita að giftum karlmanni sem bauð konu – sem kaus að koma fram nafnlaus – pening fyrir að hitta sig.
Hann sagðist vera „frekar myndarlegur maður“ frá Reykjavík. „Vel stæður“ og staddur á Akureyri vegna vinnu „í stuttan tíma.“ Konan vildi sjá mynd af honum áður en lengra væri haldið en hann neitaði bón hennar. „Ég er giftur og ekki til í að taka neina sénsa,“ sagði hann en bætti við: „Ég held samt að þú hættir ekki við ef þú ákveður að hitta mig.“
Konan birti skjáskot af samskiptum hennar við manninn í vinsæla Facebook-hópinn Mæðra Tips, þar sem meðlimir eru tæplega 28 þúsund talsins.
„Einhver kona sem tengir við að eiga mann sem er staddur á Akureyri í stuttan tíma vegna vinnu?“ skrifaði höfundur færslunnar og birti skjáskotin hér að neðan.
Önnur kona steig fram og sagðist einnig hafa fengið skilaboð frá þessum manni, sem sendir konum skilaboð undir gerviaðgangi á Facebook þar sem hann kallar sig Brunnur Brunnarsson.
Fjöldi kvenna hafa skrifað við færsluna og hafa nokkrar reynt að komast að því hver maðurinn er.
„Elska konur sem standa saman. Vona að konan hans sjái þetta og geti þá dundað sér við að henda draslinu hans út á gangstétt og skipt svo um lása,“ segir einn meðlimur hópsins.
„Mig verkjar i hjartað fyrir konuna hans sem situr heima og saknar þess eflaust að hann komi heim!“ segir annar.
Ein kona í hópnum segir að fleiri íslenskir karlmenn séu í svipuðum hugleiðingum.
„Ég hætti mér inn á stefnumótasíður i vikunni eftir langt samband. Á skömmum tíma var ég búin að fá ótal beiðnir um að vera viðhald. Ég bara held að ég sé búin for sure að missa allt álit á hinu kyninu.“
Sumar efast um að maðurinn sé að segja satt. „Oooojjj. Einhvern veginn efast ég samt um að hann sé giftur og í guðanna bænum passið þið á honum, hann hljómar mjög desperate og ábyggilega ekkert af þessu sem hann segir er satt. Ef hann væri í alvörunni frá Rvk hvernig ætlar hann að hafa þetta þá reglulegt thing?“