Fyrirtækið stefnir á að opna verslanir árið 2025 og munu þær heita Netflix House. Bloomberg skýrir frá þessu. Í fyrstu verða þessar verslanir aðeins í Bandaríkjunum en stefnt er að því að færa kvíarnar út eftir því sem tíminn líður og opna í öðrum löndum.
Þá er stóra spurningin auðvitað, hvað verður selt í þessum verslunum? Svarið er að þar verður ýmis varningur tengdur því efni, sem Netflix býður upp á, seldur. En það verður einnig hægt að kaupa sér máltíð þar og einnig verða verslanirnar notaðar fyrir viðburði tengda ákveðnum kvikmyndum eða þáttaröðum.
Josh Simon, aðstoðarforstjóri neytendaafurða hjá Netflix, sagði í samtali við Bloomberg að fyrirtækið sjái að aðdáendur taki miklu ástfóstri við kvikmyndir og þáttaraðir og af þeim sökum hafi fyrirtækið lengi hugsað um hvernig sé hægt að bæta enn meira við þessa upplifun.
En hann skýrði ekki nánar hvernig þessu verður háttað og því verða Netflix-aðdáendur að bíða enn um sinn eftir nánari upplýsingum.
Ekki er langt síðan Netflix hætti að leigja DVD-diska út en slík útleiga var upphafið að rekstri fyrirtækisins fyrir aldarfjórðungi. Síðan þróaðist þetta yfir í streymisveitu.