“Ég er landamærabarn” segir Magnús J. Kjartansson, betur þekktur sem Maggi Kjartans, tónlistarmaður í nýjasta þætti Kalda pottsins þar sem hann spjallar við Mumma Tý Þórarinsson um flest annað en tónlistarferilinn og Trúbrot. Maggi ólst upp í bítlabænum Keflavík en nálægðin við bandaríska herinn mótaði æskuna hans mikið. Líkir Maggi því við að alast upp á landamærum. Spjallið var að sjálfsögðu á léttu nótunum, enda hefur Maggi einstaka hæfileika á að krydda samtöl með kómík.
„Maður segir stundum að tákn æsku fyrri tíma, æsku manns, voru þeir að viðtalsþættirnir voru í sjónvarpinu og landsleikirnir í útvarpinu,“ sagði Maggi áður en hann vék sér að æsku sinni í Keflavík. Hann segir að í dag þegar hann hugsar til baka sjái hann skýrt að hann er landamærabarn.
Landamærabarn
„Ég er landamærabarn. Því meira sem ég hugsa um það og því meira sem ég sé af þessari veröld, því meira átta ég mig á því að það var enginn munur á landamærum á milli Keflavíkur og Keflavíkurflugvallar, og svo öðrum landamærum þar sem þau eru. Þetta var hlið við hlið og fólk þurfti að hafa réttindi til að fara á milli og helst vera að vinna hinum megin við landamærin eins og gengur og gerist um allan heim.“
Líkt og hann voru önnur börn í Keflavík á þessum tíma landamærabörn og sem slík gerðu þau sér það að leik að finna leiðir til að komast yfir landamærin án þess að endilega mega það.
„Eins og landamærabörn alls staðar annars staðar urðum við snjöll í að spila á landamæraverði. Flakka á milli og reyna að gá hvernig við kæmumst upp með að njóta þess góða sem var sitt hvorum megin. Þegar þú ert kominn með bara eina þunna vírgirðingu á milli gjaldmiðla, milli trúarbragða, milli tungumála, milli klæðnaðar, milli allrar menningar, milli bíla, milli bensínverðs og allt þetta sem hægt var að hugsa sér. Það hafði mikil áhrif.“
Hermenn vöktuðu landamærin vígbúnir á pikkuptrukkum. Sátu þar í fullum herskrúða með vélbyssur. En börnin átti þó ekki erfitt með að finna út á hvaða tímum hermennirnir voru hvar. Þau vissu svo um holur undir vírgirðinguna og nýttu sér það óspart.
Í raun telur Maggi að það hafi eins hjálpað þeim að ekki stigu allir hermennirnir ungu á svæðinu í vitið. Maggi grínaðist með það að líklega hafi bandaríski herinn valið út þá sem væru ólíklegir til stórræða í hernum og hreinlega sent þá til Íslands þar sem væri engin hætta á að það þyrfti að nota þá í stríði.
Landinu skipt milli tónlistarmanna
Hann féll ungur kylliflatur fyrir tónlistinni. Hann vingaðist sem barn við eldri stráka sem söfnuðu plötum og naut góðs af nálægðinni við herstöðina því þannig komust krakkarnir í tónlist sem ekki var hægt að kaupa í íslenskum plötuverslunum.
Svo var að sjálfsögðu stofnuð skólahljómsveit, enda Keflavík bítlabærinn og krakkarnir vildu leika eftir hetjunum sínum. Ekki gekk þeim illa að fá gigg heldur og spiluðu til að mynda á sínum fyrsta dansleik þrátt fyrir að kunna aðeins þrjú lög.
„Þeir föttuðu það mennirnir sem að höfðu lyklavöld af félagsheimilum, danshúsum og skemmtihúsum, þeir föttuðu það snemma að með því að vera sæmilega næs við okkur strákana og skaffa okkur aðstöðu, svið og annað, að þannig stuðluðu þeir að framtíðarsamstarfsfólki.“
Þegar kom að því að spila í öðrum landshlutum var staðan þó verri. Þar þurftu þeir að treysta á glufur í ósýnilegu jarlaveldi sem hafði myndast.
„En það voru notaðar glufurnar sem komu stundum í kerfið. Það voru jarlar sem áttu viss svæði. Þú þarft ekki að hugsa neitt lengi til að muna að Dúmbó og Steini áttu Akranes, Borgarnes og Borgarfjörðinn og þar töluvert af félagsheimilum, og langt út á Snæfellsnes og víða.
Baldur Geirmundsson og þeir voru frá Ísafirði og höfðu Vestfirðina nema hljómsveitin Facon kom, Jón Kr. Ólafsson, á Bíldudal sem svo höfðu svona Suðurfirðina. Þeir gátu skipt þessu svona á milli sín.
Þetta bara myndaðist út af samgöngum. Geirmundur var með Skagafjörðinn og frá Sauðárkróki og vel niður í Húnavatnsýsluna en hann hljóp á vegg þegar hann kom inn í furstadæmi Ingimars Eydal á Akureyri og Pálma Stefánssonar sem síðast ráku sig á vegg þegar þeir síðar komu í Þingeyrarsýsluna í einhverja tónlistarmenn þar og svo rak maður sig á vegg þegar kom Ómar frá Eskifirði og var með Austurfirðina og einhverjir var með Hornafjörðinn og það var ekki hlaupið að því að komast hér [Gömlu Borg í Grímsnesi] inn í félagsheimilið og annað því hér áttu Mánar og Steini spil svæðið alveg austur að Vík. Svona var þetta stíft.“
Þetta var á árunum 1962-1975. Stundum hafi tónlistarmenn hætt sér út fyrir sitt umdæmi og þá vonast eftir að finna glufur í þessu stífa kerfi.
„Svona var þetta bara.“
Hlusta má á viðtalið við Magga og fyrri þætti Kalda pottsins á tyr.is eða á Spotify.
Kaldi Potturinn er spjallþáttur þar sem Mummi fær til sín á sviðið heima alls konar fólk úr öllum kimum samfélagsins, með fjölbreytta lífsreynslu, djúpa sýn á tilveruna og sterkar skoðanir á lífinu. Fólk sem fer sínar eigin leiðir. Mummi hefur sjálfur sterkar skoðanir og er óhræddur við að tjá sig um hvað sem er, svo allt fær að flakka á sviðinu. Kaldi Potturinn hefur ekkert að fela.
Dagskrárgerð Kalda pottsins er í höndum Mumma og stjórn upptöku er í höndum Gunnars Bjarna en upptökur fara fram á heimili Mumma og eiginkonu hans, Þórunnar Wolfram, á Gömlu Borg í Grímsnesi.